131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta.

305. mál
[12:39]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég gat ekki áttað mig á því af svari hæstv. dómsmálaráðherra hvort nefndin sem verið er að spyrja um sé enn starfandi og ágætt ef hægt væri að fá það upplýst hvort svo sé. Nefndin er þá búin að starfa á sjötta ár við verkefnið sem henni var falið án þess að skila niðurstöðu og eðlilegt að spyrja hvort nefndin hafi verið virk allan þann tíma, hvort hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um fjölda funda nefndarinnar á þessum tæpum sex árum og kostnað af nefndarstarfinu sem ekki virðist hafa orðið nein bein niðurstaða af. Við hljótum að gera þá kröfu þegar slíkar nefndir eru settar á laggirnar að þær vinni skilvirkt, skili af sér innan þeirra tímamarka sem sett eru og því eðlilegt að við viljum fá að vita: Hefur nefndin verið virk allan þennan tíma, hve oft hefur hún fundað og hver hefur kostnaður orðið?