131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta.

305. mál
[12:40]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það veldur vissulega vonbrigðum að reiknilíkanið sem átti að vera nánast tilbúið í byrjun árs 2003 skuli ekki enn vera til staðar. Mér er fullkunnugt um að fulltrúar sýslumannsembættanna vítt og breitt um landið væntu mjög mikils af starfi nefndarinnar og fyrst og fremst að það kæmi fram í leiðréttingum á fjárveitingum til embættanna þannig að það mætti styrkja þau. Það væri tekið meira tillit til þeirra aðstæðna sem væru á hverjum stað. Ég verð auðvitað að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að reiknilíkanið skuli ekki vera komið og orðið virkt í áætlun fjárveitinga og jafnframt í áætlun á mannafla á hverju svæði sem skiptir mjög miklu máli.

Annað stakk mjög í augu og ég hef kannski ekki tíma til að fara yfir en mig langar aðeins að vitna í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra sem var við störf 2002. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var markmið starfs hennar að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna til rekstrar og þjónustu sýslumannsembætta og kerfisbundinni skiptingu fjármuna milli embætta. Einnig var stefnt að því að gera kostnað einstakra embætta samanburðarhæfan og að einingarkostnaður yrði sambærilegur hjá embættunum að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna. Áður en til skipunar nefndarinnar kom höfðu dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra sameiginlega kannað möguleikana á því að skilgreina rekstur sýslumannsembætta með kerfisbundnari hætti en gert var með það fyrir augum að fá betri yfirsýn yfir fjárþörf embættanna og að stuðla að jafnari skiptingu og betri nýtingu.“

Virðulegi forseti. Ég get haldið áfram. Ræðan sem embættismenn úr dómsmálaráðuneytinu hafa lagt fyrir ráðherra er frá orði til orðs eins og ræða hæstv. dómsmálaráðherra var í október 2002 þegar þáverandi ráðherra, Sólveig Pétursdóttir, svaraði fyrirspurninni.