131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta.

305. mál
[12:42]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að menn svari spurningum á sambærilegan hátt þegar verið er að spyrja um sama efni. Eru menn að biðja um að ekki sé sagður sannleikurinn? Ég skil ekki hvaða veður menn eru að gera út af þessu og sýnir náttúrlega að það vakir ekki fyrir hv. þingmönnum að ræða þetta á málefnalegum forsendum.

Fram kemur í svari mínu að unnið hefur verið að málinu og það kemur líka fram ákveðin tillaga um að næsta skref í þessu verði að ríkislögreglustjóri taki málið fyrir og farið verði að útfæra þetta samhliða þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði miðað við þá skýrslu sem nú liggur fyrir. Menn eiga náttúrlega að leggja áherslu á það þegar þeir eru að fjalla um málefni lögreglunnar en ekki eitthvað sem gert var árið 1999 eins og þróunin hefur verið. Ef þingmenn fara yfir þetta er fjárhagsmálum sýslumannsembættanna ekki þannig fyrir komið að það hafi staðið þeim fyrir þrifum að reiknilíkanið hafi ekki verið smíðað.

Ég tel mjög mikilvægt að þegar að slíkri líkanagerð er staðið að það sé gert á góðum og traustum forsendum og ég beitti mér fyrir því þegar ég var menntamálaráðherra fyrir skólastigin og ég mun líka beita mér fyrir því þegar ég lít til rekstrar sýslumannsembættanna. Það er ekki þannig og alls ekki rétt að gefa þá mynd af fjárhagsstöðu sýslumannsembættanna að það hafi staðið henni og fjárhagsstöðu þeirra fyrir þrifum að reiknilíkanið hefur ekki verið smíðað.

Varðandi það sem hv. þingmaður Kristján L. Möller sagði er algerlega rangt og út í hött að leggja skýrsluna upp með þeim hætti sem hann gerði og raunar fráleitt og sýnir hve ómálefnalegir menn geta verið þegar þeir standa uppi í þessum ræðustól.