131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Brottvísun útlendinga úr landi.

483. mál
[12:48]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er spurt:

„Hversu mörgum erlendum einstaklingum undir 24 ára aldri hefur verið vísað úr landi á grundvelli 13. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002, síðan breytingar á þeim tóku gildi síðastliðið vor?“

Þessi spurning og raunar málflutningur fyrirspyrjanda gefur mér tilefni til að leiðrétta misskilning varðandi túlkun á 13. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002. Það er miður að hv. þingmaður kunni ekki betri skil á 13. gr. laganna en kemur fram í spurningunni, eins mikið og um hana hefur verið rætt. Þessi lagagrein fjallar einvörðungu um heimild erlendra ríkisborgara til dvalar hérlendis þegar þeir eru í hjúskap með íslenskum ríkisborgurum. Þetta margrædda ákvæði hefur ekki að geyma neina heimild til að vísa fólki úr landi.

Skv. 13. gr. útlendingalaga þarf erlendur ríkisborgari í hjúskap með íslenskum ríkisborgara að vera orðinn 24 ára til að öðlast dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins. Ákvæðið snertir heldur ekki spurninguna um hvort fólk hafi leyfi til að ganga í hjúskap. Samkvæmt ákvæðinu er alls ekki skylt að vísa hinum erlenda ríkisborgara úr landi þótt hann fullnægi ekki þessu skilyrði. Einstaklingar undir 24 ára aldri í hjúskap með íslenskum ríkisborgurum hafa fengið dvalarleyfi hérlendis og þá á grundvelli 11. gr. útlendingalaganna.

Eitt er að fá dvalarleyfi, annað að vera vísað úr landi. Engum er vísað úr landi nema að baki þeirri ákvörðun sé sjálfstæð rannsókn. Synjun um dvalarleyfi og ákvörðun um brottvísun eru tvær aðskildar stjórnvaldsákvarðanir. Unnt er að kæra þær báðar til æðra stjórnvalds. Hafi einstaklingur ekki aflað sér dvalarleyfis en neitar engu að síður að yfirgefa landið má grípa til þess ráðs að vísa honum úr landi með valdi með vísan til 20. gr. útlendingalaganna. Þess vegna hefði verið skynsamlegra að orða fyrstu spurninguna á þennan veg:

Hversu mörgum erlendum einstaklingum undir 24 ára aldri í hjúskap með íslenskum ríkisborgurum hefur verið vísað á brott af Íslandi á grundvelli 20. gr. útlendingalaganna síðan breytingar á þeim tóku gildi síðasta vor?

Svarið við þeirri spurningu er: Tveimur erlendum karlmönnum sem kvæntir eru íslenskum konum hefur verið vísað á brott vegna brota á 20. gr. laganna.

Í öðru lagi spyr hv. fyrirspyrjandi:

„Hversu margir þessara einstaklinga voru konur og hversu margir karlar?“

Svarið er hið sama og áður: Tveir karlar.

Í þriðja lagi er spurt:

„Hversu margir þessara einstaklinga eiga börn hér á landi?“

Annar mannanna á barn utan hjónabands en í hinum hjúskapnum er fyrir að fara stjúpbarni. Báðum mönnunum var vísað úr landi sökum þess að þeir höfðu fengið synjun á dvalarleyfi á grundvelli 13. gr. laganna en hvorugur þeirra lagði fram umsókn um annars konar leyfi og báðir hafa kært brottvísunarúrskurði Útlendingastofnunar til dómsmálaráðuneytisins.