131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Brottvísun útlendinga úr landi.

483. mál
[12:51]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég varð afskaplega ánægð þegar ég sá að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hreyfði þessu máli. Ég er sammála henni um að við eigum að fylgjast mjög vel með því hvernig svo umdeild löggjöf, sem sett var fyrir rúmu ári, virkar. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að fá þessi svör. Nú liggur fyrir að löggjöfin hefur náð yfir tvo erlenda karlmenn.

Ég hafði dálítið gaman af því þegar þingmaðurinn kallaði hæstv. ráðherra Björn Bjarnason menntamálaráðherra því að mér verður það mjög oft á. Mér finnst það eiginlega ánægjulegt fyrir hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason vegna þess að yfirleitt fór af honum gott orð sem menntamálaráðherra. Ég verð að segja að þótt það sé gott að vera með kennslustund fyrir unga þingmenn þá hefði þessi kennslustund mátt vera öðruvísi og með öðrum formerkjum en sú sem hér fór fram.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra verði kallaður dómsmálaráðherra þegar hann verður orðinn almennur þingmaður.

(Forseti (JBjart): Forseti vill minna þingmenn á að virða hinn stutta ræðutíma sem er við þessar umræður um fyrirspurnirnar.)