131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Verðmæti og ráðstöfun losunarheimilda.

385. mál
[13:26]

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra skýr svör þó að verðið sem hún tilgreinir sé nokkuð lægra en heimildir mínar kváðu á um. Ég vil af þessu tilefni spyrja ráðherrann hvort hún telji sjálfsagt að stóriðjan fái til allrar framtíðar þessar heimildir endurgjaldslaust.

Í svari sínu við fyrirspurninni hér á undan benti hún á að samningar við stóriðjuna eru tímabundnir og renna út og að orkusölusamninga þurfi t.d. ekki að endurnýja við hana. Telur ráðherrann þá að til greina komi að krefja um greiðslur fyrir mengun frá stóriðjunni þegar t.d. þeir samningar renna út?

Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra tjái sig um það hvernig ráðherrann bregst við ef stækkanir á Grundartanga umfram það sem nú er ákveðið, stækkanir í Straumsvík og álver á Norðurlandi, rekast hver á aðra og ekki eru til losunarheimildir fyrir öllum þeim framkvæmdum sem menn vilja standa fyrir. Hvernig á þá að gera upp á milli þess hver á að fá mengunarheimildirnar, Straumsvík, Norðurál eða Norðurland?