131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Raforkuverð til garðyrkju.

415. mál
[13:33]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn þessi lýtur að hækkun á raforkuverði til gróðurhúsabænda. Þótt málefni þessara aðila falli undir verksvið landbúnaðarráðuneytis finnst mér rétt að gera grein fyrir ástæðum fyrir breytingum á raforkuverði til þessara aðila.

Frá og með síðastliðnum áramótum hefur sú breyting orðið á að ekki er heimilt að mishátt gjald sé fyrir flutning og dreifingu raforku eftir því til hvers orkan er notuð. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að við setningu gjaldskrár fyrir orku, flutning og dreifingu verði tekið tillit til þess að orkunotkun gróðurhúsabænda er talsverð og að hluta til er hægt að haga henni þannig að hún falli utan álagstoppa. Slík gjaldskrárákvæði byggja á því að þeir notendur sem eru eins settir varðandi orkunotkun og nýtingu njóti sömu kjara en ekki er gert ráð fyrir sérstökum afsláttarkjörum til einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa.

Hvað orkuþáttinn sjálfan varðar er það hins vegar svo að orkusölum er heimilt að veita afslætti til gróðurhúsabænda ef fyrirtækin sjá sér hag í því og gæta þess að fara ekki á svig við samkeppnisreglur.

Í gildi er aðlögunarsamningur frá árinu 2002 milli fjármála- og landbúnaðarráðherra annars vegar og garðyrkjubænda hins vegar. Í samningi þessum er ylræktendum tryggt raforkuverð með niðurgreiðslum sem er sambærilegt og það verð sem garðyrkjubændur í nágrannaríkjum okkar stendur til boða.

Í sérstöku samkomulagi milli Rafmagnsveitna ríkisins og garðyrkjubænda var kveðið á um framkvæmd niðurgreiðslunnar. Að auki veitti Landsvirkjun Rarik allt frá árinu 1997 helmingsafslátt af aflgjaldi til gróðurhúsalýsingar. Landsvirkjun felldi hins vegar niður þennan afslátt í mars á síðasta ári en Rarik hefur framlengt óbreytt þetta samkomulag við gróðurhúsabændur meðan unnið hefur verið að lausn málsins.

Ein af ástæðum fyrir aukinni fjárþörf til niðurgreiðslna raforku til gróðurhúsabænda er sú að mikil aukning hefur orðið á raforkunotkun til lýsingar á síðustu tveimur árum. Á árinu 2004 jókst notkun þeirra um 40% og gert er ráð fyrir að hún aukist nokkuð enn. Er það vitaskuld gleðiefni að vöxtur og uppbygging skuli vera í þessari landbúnaðarframleiðslu sem á í mikilli samkeppni við innfluttar afurðir.

Verið er að skoða möguleika á auknum niðurgreiðslum til garðyrkjubænda samkvæmt aðlögunarsamningi þeirra við ríkið til að mæta vanda þeirra og er erindi garðyrkjubænda um þetta efni til umfjöllunar í landbúnaðarráðuneytinu. Vil ég um þetta atriði vísa til ummæla landbúnaðarráðherra á hinu háa Alþingi á fimmtudaginn í síðustu viku en þar sagðist hann gera sér grein fyrir að mikla peninga þyrfti til að koma til móts við þarfir garðyrkjubænda og nefndi í því sambandi 55–60 millj. kr. og unnið væri að lausn málsins í ráðuneytinu. Ég veit að þar er unnið af kappi að lausn málsins og þykist fullviss um að viðunandi úrlausn fáist.