131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Raforkuverð til garðyrkju.

415. mál
[13:40]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að beina þessu máli alfarið á hæstv. landbúnaðarráðherra, þetta væri mál hans en ekki iðnaðarráðuneytisins. Nú er það svo, eins og við höfum áður sagt í umræðum við hæstv. ráðherra, að hún hefur yfir að segja bæði Landsvirkjun og Rarik og því kemur þetta mál henni verulega við.

Garðyrkjan er að sjálfsögðu stóriðja þeirra sveita og byggða þar sem hún er stunduð. Það er undarlegt að velta því fyrir sér að stóriðja í erlendri eigu getur fengið hér samninga um raforkuverð sem er langt, langt fyrir neðan það verð sem hægt er að semja við hina innlendu stóriðju í sveitum.

Því hlýt ég að spyrja: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að Landsvirkjun, sem heyrir undir hana, og Rarik sömuleiðis muni bjóða betra verð til garðyrkjubænda fyrir þá raforku sem þeir þurfa að nota?

Ef hægt er að semja um lágt verð til erlendrar stóriðju hlýtur eins að vera hægt að semja um lágt verð til innlendrar stóriðju.