131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Raforkuverð til garðyrkju.

415. mál
[13:41]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta klúður sem við ræðum um í dag er að sjálfsögðu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þá einkum og sér í lagi hæstv. iðnaðarráðherra. Þetta er enn eitt dæmið um að stórum lagabálkum er nánast þröngvað í gegnum þingið á elleftu stundu og þeir afgreiddir af hroðvirkni og síðan kemur í ljós að þeir eru stórgallaðir. Þetta eru náttúrlega óafsakanleg vinnubrögð.

Nú sjáum við að bændur kvarta yfir þessu. Það er ekkert skrýtið. Maður hefur fylgst með umræðu í fjölmiðlum og þetta er ískyggilegt ástand sem er að skapast. Að sjálfsögðu hljótum við að skoða til að mynda garðyrkjubændur, t.d. á Suðurlandi. Þingmenn sem hafa talað hér á undan mér hafa réttilega bent á að þetta er stóriðja í þeim landshluta og sá landshluti framleiðir mikið af raforku. Hvers vegna ætti hann þá ekki að fá að njóta þess til að mynda í lækkuðu verði á raforku?

Ég trúi svo ekki öðru fyrr en ég tek á því að sérstaklega landsbyggðarþingmenn, en líka allir þingmenn hvar í flokki sem þeir standa, hljóti að leggja pressu á ríkisstjórnina um að þessir hlutir verði lagfærðir.