131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Eignir Tækniháskóla Íslands.

228. mál
[13:49]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á dagskrá fyrirspurn mín til menntamálaráðherra frá því í október síðastliðnum en þá höfðum við fengið fregnir af því hér á Alþingi í gegnum fréttatilkynningar frá menntamálaráðuneytinu að stofna ætti einkahlutafélag um rekstur sameinaðs Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Tækniháskóli Íslands er háskóli í eigu hins opinbera og því hlutu að vakna upp margar spurningar á þessum tíma um hvernig stjórnvöld ætluðu að einkahlutafélagavæða einn af ríkisháskólunum.

Það er mín skoðun að sameining skóla á háskólastigi geti verið af því góða. Það má færa fyrir því rök að þeir séu nú þegar of margir miðað við fólksfjölda hér á landi. Sameining getur því vel orðið til þess að efla einstaka skóla verulega og haft góð áhrif á íslenskt háskólasamfélag. Það er hins vegar ekki sama hvernig það er gert og mjög mikilvægt einmitt þess vegna að litið sé heildrænt á málaflokkinn og ekki síst að upplýsingaflæði sé gott frá ráðuneytinu. Svo hefur ekki verið í þessu máli og mér hafa fundist vinnubrögð ekki vera til fyrirmyndar hvað það varðar þegar svona stór breyting á sér stað.

Mér finnast rökin fyrir því að stofnað sé einkahlutafélag um rekstur háskóla hér á landi í fyrsta skipti í sögunni standa á afar veikum grunni. Spurningunni um það hvers vegna ekki var valin sú leið að setja á laggirnar sjálfseignarstofnun, eins og t.d. var gert um rekstur Viðskiptaháskólans á Bifröst, hefur ekki verið svarað nægilega vel, því að eftir stendur að á háskólastigi verðum við með á annan tug skóla og þrjú mismunandi rekstrarform þegar þessi sameining gengur í gegn. Eitt af því verður einkahlutafélag rekið fyrir almannafé því undirstaða rekstursins verður áfram framlag frá ríkisvaldinu.

Virðulegi forseti. Ég gæti farið mörgum orðum um þau sérkennilegu vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við vinnslu þessa máls, enda, eins og ég sagði áðan, kom megnið af upplýsingum um þessa sameiningu í gegnum fréttatilkynningar frá ráðuneytinu en voru ekki ræddar í menntamálanefnd fyrr en eftir að fyrir lá að Tækniháskólinn yrði settur í einkahlutafélagaform. Ein þeirra spurninga sem auðvitað kviknaði á þessum tíma og ég tel að ekki hafi verið svarað er spurningin um eignir Tækniháskólans og hvernig þeim verður ráðstafað inn í hið nýja einkahlutafélag því mikilvægt er að það liggi fyrir hvað þessi sameining háskólanna muni kosta ríkissjóð þegar á hólminn er komið.

Því hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. menntamálaráðherra:

1. Voru eignir Tækniháskóla Íslands metnar í aðdraganda samningaviðræðna skólans og Háskólans í Reykjavík? Ef svo er, hver var niðurstaða þess mats?

2. Hvernig er áætlað að farið verði með eignir Tækniháskóla Íslands við sameiningu skólanna? Verða þær lagðar inn í einkahlutafélagið sem hlutaeign ríkisins eða verða þær seldar?