131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Eignir Tækniháskóla Íslands.

228. mál
[13:56]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hérna er mikilvægt mál á ferðinni sem við erum að vinna núna í menntamálanefnd. Við vorum að ljúka yfirferð þess í morgun. Ég vil taka fram að ég lýsti mig strax í upphafi frekar jákvæðan fyrir sameiningu með þessu móti og tel að þar komi ýmsir kostir til greina, svo sem sameining Tækniháskólans við Háskóla Íslands, sameining við Viðskiptaháskólann á Bifröst eða sameining við Háskólann í Reykjavík. Þessir kostir voru, að því ég best veit, aldrei skoðaðir neitt sérstaklega. Við fréttum það í gegnum fjölmiðlaleka á haustdögum að þetta stæði til. Pukur og leynd voru yfir málinu fram eftir öllu hausti þangað til það kom hér inn án þess að nokkur hefði komið að því hér úr röðum Alþingis eða menntamálanefndar. Ég vil því taka undir þau orð hv. fyrirspyrjanda að aðdragandinn að þessu máli var ámælisverður og ráðherranum ekki til sóma. Þarna var verið að skemma fyrir mjög mikilvægu og góðu máli sem efling tæknigreina er á háskólastigi. Það er mjög mikilvægt mál og þar átti að sjálfsögðu að skoða alla kosti sem koma til greina þannig að það væri alveg á hreinu að það sem af stað væri með farið, að efla tækninámið, yrði niðurstaðan.