131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Eignir Tækniháskóla Íslands.

228. mál
[13:57]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hnaut aðeins um það þegar hæstv. menntamálaráðherra tilgreindi eignir Tækniháskólans hversu upphæðirnar voru ótrúlega lágar. Tækniháskóli Íslands fer inn í þetta með eignir sem ná ekki einu sinni 100 milljónum. Það væri fróðlegt að sjá eignaskrána til að sjá hvað er á bak við þessar, ég vil segja, ótrúlega lágu tölur.

Það er líka gaman að velta því fyrir sér hver fyrri reynsla ríkisins sé af sameiningu skóla og einkavæðingu þeirra, breytingu þeirra jafnvel í einkahlutafélög. Þá væri gaman að líta til reynslunnar af breytingum sem gerðar voru á fyrirkomulagi Stýrimannaskólans og Vélskólans á sínum tíma og hvort ríkið hafi notað eitthvað úr þeim reynslubrunni í tengslum við þetta mál hér.