131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Eignir Tækniháskóla Íslands.

228. mál
[13:58]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að þessar tölur eru ótrúlega lágar miðað við að verið er að tala um skólastofnun sem þessa.

En ég vil líka beina spurningu til hæstv. ráðherra vegna þess að það kemur fram að í raun sé frágengið að þessar eignir, þó litlar séu, fari inn í sameininguna af hálfu ríkisins. Ég held að það sé rétt hjá mér að slíkt sé óheimilt nema með heimild í fjárlögum, þó ekki sé nema um nokkra tugi milljóna að ræða þá verði Alþingi að veita sérstaka heimild til þess að ráðstafa eignum ríkisins. Ég held að það sé alveg klárt. En ég spyr hæstv. ráðherra hvort eftir slíkri heimild hafi verið leitað.