131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Eignir Tækniháskóla Íslands.

228. mál
[13:59]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka menntamálaráðherra fyrir svörin og tek undir með þeim sem hér hafa talað að þetta er alveg ótrúlega lág tala miðað við að þetta á að vera glæsilegur tækniháskóli á háskólastigi sem við eigum að hafa verið að reka hér með metnaði undanfarin ár, þannig að þetta kemur mér verulega á óvart.

Það sem ég átti við varðandi upplýsingaflæðið áðan var — örugglega hefur verið ágætt upplýsingaflæði á milli skólanna og á milli ráðuneytisins og skólanna og stjórnenda þeirra — en það sem ég átti við er að hér er verið að gerbreyta rekstrarformi. Verið er að koma með algerlega nýtt rekstrarform inn á háskólastigið og ég tel að slík breyting ætti að krefjast nánara samstarfs við löggjafann og þingið.

En það sem ég vil bæta við er að nú er verið, eins og kom fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, að vinna þetta mál í menntamálanefnd og þar hefur komið fram að ríkisvaldið muni taka yfir skuldir Tækniháskólans áður en Tækniháskólinn rennur inn í þetta einkahlutafélag. Mér skilst að sú tala sé um 100 millj. kr. Ég vil fá það staðfest hvort þetta sé rétt vegna þess að þá erum við að tala um að heimanmundurinn inn í þetta einkahlutafélag í rauninni verði 140 millj. kr. allt í allt eða kostnaður ríkisins við sameininguna.

Mér finnst mikilvægt að þetta liggi fyrir því eins og fram kom var ekkert minnst á þessa tilhögun í fjárlögum fyrir þetta ár og fjárhagslegar forsendur þessarar sameiningar hafa ekki legið fyrir. Mér þætti því vænt um að heyra nánar um það. En ég þakka aftur fyrir svörin sem fram komu.