131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Tæknigreinar og verkfræði.

370. mál
[14:06]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Verkefni framhaldsskólanna er m.a. að búa nemendur undir störf og frekara nám á háskólastigi. Það er breytilegt frá einum tíma til annars hve mikil eftirspurn er eftir námi á hinum margvíslegu námsleiðum sem standa til boða í framhaldsskólum landsins. Það einkennir íslenska framhaldsskóla að þeir eru sveigjanlegir og fljótir að laga sig að breyttum aðstæðum og breyttri eftirspurn eftir námi. Því er mikilvægt að námsframboð sé í sem bestu samræmi við eftirspurn eftir námi á hverjum tíma.

Með útkomu nýrrar aðalnámskrár framhaldsskóla árið 1999 var gerð talsverð breyting á skipulagi raungreina í framhaldsskólum með áherslu á þverfaglegan þekkingargrunn sem nemendur á öllum bóknámsbrautum fengju. Frekari sérhæfing í einstökum raungreinum byggist svo á þessum grunni.

Mikil uppbygging hefur orðið síðan þá með verulega bættum kennsluaðferðum í raungreinum í mörgum framhaldsskólum og ráðuneytið hefur sérstaklega styrkt útgáfu námsefnis til raungreinakennslu í framhaldsskólum.

Skólaárið 2002–2003 brautskráðust 802 nemendur með stúdentspróf af náttúrufræði- og raungreinabrautum framhaldsskólanna samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Fjöldi nemenda með stúdentspróf af þeim brautum var 634 skólaárið 1995–1996, þannig að þeim hefur fjölgað töluvert á þessu árabili. Stúdentspróf af náttúrufræðibraut er að mínu mati afar góður undirbúningur fyrir m.a. nám í tæknigreinum og verkfræði á háskólastigi.

Með tilkomu viðbótarnáms til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum hefur verið opnaður nýr farvegur til undirbúnings námi á háskólastigi sniðið sérstaklega að þörfum þeirra sem lokið hafa skilgreindu starfsnámi á framhaldsskólastigi. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega geta þess og undirstrika að stúdentspróf af starfsnámsbrautum eru að sjálfsögðu jafngild og stúdentspróf af bóknámsbrautum.

Skólaárið 2002–2003 brautskráðust 208 nemendur með stúdentspróf sem lokið var með tilteknu viðbótarnámi við skilgreint starfsnám. Flestir þeirra nemenda búa sig undir nám í tæknigreinum og verkfræði samkvæmt upplýsingum okkar.

Segja má að af þessu sé ljóst að stórir hópar brautskrást með stúdentspróf sem eru vel fallin til undirbúnings námi í tæknifræði og verkfræði. Þessir hópar hafa farið sem betur fer stækkandi á undanförnum árum hvort heldur sem litið er á fjölda eða hlutfall. Ég tel það í rauninni skýr merki um að framhaldsskólarnir geti lagað sig að aukinni áherslu á tæknigreinar og verkfræðigreinar á háskólastigi á komandi árum, hafi þeir nú ekki þegar gert það eins og skýrar vísbendingar eru um í dag.

Engu að síður er það þannig eins og komið hefur fram að við þurfum að fjölga tæknimenntuðu fólki og það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. Önnur Kristínu Gunnarsdóttur að við þurfum að bæta grunninn og það þýðir ekki eingöngu á framhaldsskólastigi heldur líka á grunnskólastigi. Í þeim efnum hef ég skipað starfshóp sem var falið að gera m.a. tillögur um leiðir til þess að glæða sérstaklega áhuga unga fólksins, bæði í grunnskóla og í framhaldsskóla, á rannsóknatengdu háskólanámi og raungreinum almennt og tæknimenntun. Starfshópurinn skilaði fyrir skömmu fyrstu tillögum sínum, frumtillögum, og ég bind vonir við að á þeim grunni verði m.a. hægt að byggja til að fjölga nemendum í raun- og tæknigreinum á næsta ári, en þær tillögur eru afar athyglisverðar við fyrstu sýn. Til að mynda eru lagðar fram tillögur um að skoða uppbyggingu á tilraunahúsi sem verður þá gert aðlaðandi til þess að ungir nemendur sjái þennan töfraheim sem raungreinarnar í rauninni bjóða upp á.

Afar mikilvægt er eins og kom fram hjá hv. þingmanni að skoða þetta mál, þessa mynd sem heildstæðasta því að ekki dugar eingöngu að stefna að því að fjölga tæknimenntuðu og verkfræðimenntuðu fólki á háskólastigi. Við þurfum að byggja þetta strax frá grunni og reyna að laða að unga fólkið í raungreinarnar þannig að það velji líka raungreinar þegar komið er í framhaldsskóla og ég held að það skipti lykilmáli hér.

Hv. þingmaður kom inn á fyrirhugaða styttingu á námstíma til stúdentsprófs og vil ég sérstaklega taka fram að þar er verið að tala um að færa stærðfræði á milli, verið er að tala um að færa námsefni á milli framhaldsskóla og grunnskóla. Sú tillaga byggir fyrst og fremst á því að ljóst er að verið er að endurtaka mikið af því námsefni sem er kennt í 10. bekk í grunnskóla í áföngum 103 í framhaldsskóla, og mér hefur verið bent á að stærðfræðin í 103 er svo til endurtekning á því sem er í 10. bekk í grunnskóla fyrir utan hornaföllin að mér skilst.