131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Tæknigreinar og verkfræði.

370. mál
[14:12]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að henni hefði verið bent á að námsefni úr grunnskóla í stærðfræði væri mikið endurtekið í framhaldsskólanum. Það kann að vera. En ég ætla hins vegar að benda hæstv. ráðherra á það á móti að stór hluti nemenda grunnskólans nær ekki tilskildum lágmarksárangri í stærðfræðigreinum frekar en öðrum greinum reyndar á grunnskólaprófi. Það þarf því að efla kennsluna í grunnskólanum og taka hana reyndar til heildarendurskoðunar tel ég. Og þó að eitthvað sé endurtekið í framhaldsskólanum tel ég það ekki merki um að hægt sé að bæta á í grunnskólanum án þess að þar séu málin tekin alveg fullkomlega til endurskoðunar og breytt hvernig farið er að. Einkum og sér í lagi verði kennaramenntunin tekin til endurskoðunar og reynt að fjölga þeim sem hafa tilskilið undirbúningsnám í þessu.

Hæstv. ráðherra sagði að hún teldi náttúrufræðibrautarundirbúning vera góðan undirbúning fyrir verkfræði- og tæknifræðimenntun á háskólastigi. Ég tel að það sé eðlisfræðibrautarundirbúningurinn eins og hann var í eldra kerfinu sem sé bestur og á þeirri braut eða á þeirri línu eru afar fáir nemendur. Það eru ekki svo fáir sem taka náttúrufræðigreinarnar en mjög fáir sem taka eðlisfræðigreinarnar og þyngstu stærðfræðina sem er besti undirbúningurinn fyrir verkfræðinám.

Ég held að mjög mikið sé óunnið í undirbúningi, bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi, áður en hægt er að efla eða fjölga nemendum á háskólastigi.