131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga í grunn- og framhaldsskólum.

357. mál
[14:17]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leggja mjög ríka áherslu á að öll útlend börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli njóti góðrar og markvissrar kennslu í íslensku og jafnframt í móðurmáli sínu, sem er oft grunnurinn að því að læra íslenskuna, vegna þess að það er lykillinn að því að þessum börnum nýtist grunnskólinn. Það er lykillinn að því að þessi börn njóti tækifæra til frekara náms og starfa í samfélaginu til jafns við önnur börn. Ég er líka einlægt þeirrar skoðunar að við eigum að vera tilbúin til að kosta því sem til þarf til að tryggja þessum börnum íslenskunámið.

Frú forseti. Ég veit að hæstv. núverandi menntamálaráðherra er sama sinnis. Að gefnu tilefni rifjaði ég nýlega upp umræðuna sem varð á Alþingi þegar við settum nýju útlendingalögin. Þá lagði hæstv. menntamálaráðherra, sem þá var formaður allsherjarnefndar, mikla áherslu á að útlendingar lærðu íslensku, ættu gott aðgengi að námskeiðum og öðru, vegna þess að það væri grunnurinn að því að þeir gætu aðlagast íslensku samfélagi.

Aðalnámskrá grunnskóla fjallar ekki um þetta, aðalnámskrá framhaldsskólans gerir það ekki heldur, en þó er í gildi reglugerð um rétt nemenda í grunnskólum til íslenskunáms sem kveður á um tvær stundir á viku í sérstakri íslenskukennslu á meðan nemandinn sem er með annað móðurmál en íslensku er að ná tökum á íslensku máli. Þar segir líka að að mati skólastjóra og sérfræðiþjónustu skóla geti kennslan verið mismunandi eftir skyldleika móðurmáls nemanda við íslenskuna. Þarna glittir í skilning á því hvað börn með annað móðurmál en íslensku standa misjafnlega að vígi eftir því hvert móðurmál þeirra er.

Í framhaldsskólanum er á hinn bóginn, eins og ég sagði áðan, ekkert í aðalnámskrá um réttindi þessara barna þó að ákveðnir framhaldsskólar hafi haft frumkvæði að því að veita kennslu í íslensku sem er auðvitað grunnurinn að því að þeir geti tileinkað sér námið sem framhaldsskólinn býður upp á.

Það hefur sýnt sig og tölfræðin sýnir það hversu miklu máli þetta skiptir og m.a. þær tölur sem við höfum yfir mikið brottfall þessara nemenda í framhaldsskólanum, að því ógleymdu að þetta getur líka valdið því að margir nemendur sem eru að ljúka grunnskóla ná ekki lágmarkseinkunn í einu eða fleiri fögum.

Það er margt gott gert og margt gott verið að gera. Ég held jafnvel að við getum gert betur til að koma í veg fyrir brottfallið með því að hjálpa þessum börnum að aðlagast og tileinka sér nám í framhaldsskólanum.

Frú forseti. Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort uppi eru áform um að efla íslenskukennslu fyrir nemendur og eins hvort lagt hafi verið mat á þörf fyrir kennslumiðstöð, námsefnisbanka og námsefnisgerð fyrir kennslu í íslensku fyrir útlendinga.