131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga í grunn- og framhaldsskólum.

357. mál
[14:27]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil fá að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir greinargott svar hennar og jákvæðni í garð þessa málefnis og geri mér vonir um að við séum í náinni framtíð að gera betur en við höfum verið að gera. Markmiðið er að koma í veg fyrir ákveðin vandamál eins og skapast hafa í kringum útlendinga og hjá útlendingum í nánustu nágrannalöndum okkar og við lærum af þeim mistökum sem þau mörg hafa gert.

Eitt af því sem ég tel að þurfi að meta er t.d. hvort þær tvær stundir eða þær stundir sem ákveðnar verða og eru í reglugerðinni duga þessum börnum, vegna þess hve bakgrunnur þeirra er ólíkur og móðurmál þeirra getur verið geysilega ólíkt íslenskunni og þar af leiðandi erfiðara fyrir þau að tileinka sér hana. Það er eitt að geta tileinkað sér íslensku til samskipta en annað að geta tileinkað sér hana og lært hana þannig að hún sé til gagns til náms í grunnskóla og síðan til náms í framhaldsskóla af því að oft spilar líka inn í það mismunandi menningarlegur bakgrunnur sem veldur því að sum börn standa verr að vígi en önnur.

Eitt sem mig langar sérstaklega að leggja áherslu á og hefur sýnt sig er að börn sem eru með íslensku sem annað tungumál fá mörg síður aðstoð heima fyrir með heimanám vegna skorts á kunnáttu foreldranna í íslensku. Það kallar í sjálfu sér líka á aukinn stuðning við þessi börn.

Menn hafa bent á að við séum að gera margt gott og það eru margir að vinna í þessum málaflokki en við þurfum einhvers staðar að sameina kunnáttuna. Þess vegna laut hluti af fyrirspurn minni að afstöðu ráðherrans til kennslumiðstöðvar þar sem menn hafa bent á að þurfi að vera gott samstarf við símenntunarstöðvar og námsefnisbanki og öflug námsefnisgerð og að tryggja gott samstarf á milli allra skólastiganna í þessu máli.