131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga í grunn- og framhaldsskólum.

357. mál
[14:29]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það hefur margt verið gott gert í þessum efnum og má í rauninni segja að það hafi orðið gjörbylting í skólakerfinu, bæði varðandi viðhorf og líka það hvernig hægt er að mæta þörfum þessa þýðingarmikla hóps fyrir samfélag okkar. Það hefur því margt gott verið gert en auðvitað á aldrei að nema staðar þegar kemur að skólastarfi, heldur líta fram á við hvernig hægt er að móta skólakerfið þannig að það mæti þörfum allra. Þetta er orðinn nokkuð stór hópur, eins og ég minntist á áðan, sem við þurfum að koma til móts við. Við erum að átta okkur á hvert umfangið er og hvaða leiðir er best að fara. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að hóparnir eru mjög mismunandi, þeir eru með mismunandi grunn til að takast á við íslenskuna. Sumir hafa góðan grunn, aðrir ekki. Og við lítum svo á að með til að mynda þessu tækifæri sem er í rauninni á tvenns konar sé annars vegar verið að veita nemendum tækifæri sem eru með góðan grunn eina leið og hins vegar sé tekið tillit til þeirra sem hafa ekki eins góðan grunn. Ég held að sú leið sé til fyrirmyndar.

Ég vil einnig benda á það að við höfum farið í samvinnu við Reykjavíkurborg og félagsmálaráðuneytið. Þessir þrír aðilar hafa komið að því að fara í verkefni sem heitir „Framtíð í nýju landi“ og það veitir ungu fólki, m.a. sem er frá Víetnam upprunalega, möguleika til þess að tengjast betur samfélaginu og nema líka málið betur. Það er því ýmislegt verið að gera en við verðum að halda áfram að horfa fram á við hvað þetta varðar.

Ég vil einnig geta þess að Kennaraháskóla Íslands hefur verið falið að móta það hvernig við getum staðið að því að undirbúa þá útlendinga sem þurfa að taka námskeið í íslensku til þess að öðlast búsetuleyfi sem hv. þingmaður kom síðan inn á í upphafsræðu sinni.