131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Stuðningur við krabbameinssjúklinga.

303. mál
[14:31]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í nóvember 2003 beindi ég þeirri spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann mundi beita sér fyrir breytingum á þágildandi reglugerð þar sem kveðið var á um stuðning við þá sem fengið hafa krabbamein eða aðra sjúkdóma til kaupa á hjálpartækjum eða vörum þannig að sjálfsákvörðunarréttur sjúklingsins væri virtur hvað varðar nýtingu þess fjármagns sem einstaklingnum er ætlað hverju sinni. Á þetta t.d. við hvað varðar styrki til kaupa á gervibrjóstum og hárkollum sem ekki mátti þá nýta til kaupa á sérstökum höfuðfötum, sérhönnuðum sundfötum eða til að greiða fyrir tattóveringu augabrúna. Við sem reynt höfum á ákvæði þessarar reglugerðar höfum ítrekað bent á að ákvæðinu þyrfti að breyta, ekki síst listamaðurinn Anna Pálína Árnadóttir sem var einstaklega ötul í þessari baráttu en lést nú í vetur.

Þessi barátta skilaði sér, ráðherra hefur nú gert ákaflega mikilvægar breytingar á reglugerðinni. Styrkur til kaupa á gervibrjóstum eða hárkollu er ekki lengur bundinn þeirri vöru, heldur má nýta hann á annan hátt sem getur skipt sjúklinginn miklu máli og ber að þakka ráðherra sérstaklega fyrir það.

Enn sýnist mér þó óljóst hvort heimilt er að nýta þennan styrk samkvæmt reglugerðinni til hóps kvenna sem hafa farið í brjóstnám og enduruppbyggingu en ekki fengið aðgerð lokið þar sem ekki var á þeim tíma hægt að ljúka við gerð geirvörtu á brjóst með tattóveringu á sjúkrastofnun, eins og Álfheiður Ingadóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, hefur vakið athygli á hér á Alþingi.

Þó að hæstv. ráðherra hafi svarað fyrri spurningu minni á þskj. 331 með verkum sínum stendur eftir spurning nr. 2: Hvernig er háttað styrkjum og stuðningi við börn, þ.e. yngri en 18 ára, sem ekki eru á sjúkrastofnunum, sem hafa farið í gegnum erfiðan sjúkdóm, t.d. krabbamein, misst hárið eða þurft önnur hjálpartæki? Sömuleiðis: Hver er sjálfsákvörðunarréttur aldraðra sjúklinga sem dvelja á öldrunarstofnunum?

Virðulegi forseti. Það er ekki einungis Álfheiður Ingadóttir, hv. varaþingmaður Vinstri grænna, sem hefur vakið athygli á því að ekki er hægt að ljúka uppbyggingu brjósta á ákveðnum hópi kvenna sem fóru í þá aðgerð fyrir nokkru síðan, heldur hefur hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir verið óþreytandi við að vekja athygli á málinu.