131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis.

424. mál
[14:47]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Þrátt fyrir að heimilisofbeldi sé eitt algengasta mannréttindabrot á Íslandi, höfum við hvorki hegningarlagaákvæði sem minnist á heimilisofbeldi, né sérhæfða bráðamóttöku fyrir þolendur slíks ofbeldis. Árið 2002 ákvað ríkisstjórnin að leggja fé í að koma á fót sérhæfðri móttöku fyrir þolendur heimilisofbeldis. Hálfu ári seinna gerði dómsmálaráðherra samkomulag við Landspítalann um að sérhæfð móttaka á slysa- og bráðadeild spítalans yrði sett á fót fyrir þolendur heimilisofbeldis. Samkvæmt svari frá hæstv. dómsmálaráðherra frá 17. nóvember sl. við fyrirspurn hv. þm. Jónínu Bjartmarz kemur fram að ekki hefur enn verið sett á fót eiginleg sérhæfð móttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis. Og enn hafa ekki verklagsreglur verið settar þótt undirbúningsnámskeið hafi verið haldið fyrir starfsfólk slysa- og bráðasviðs. Tvær milljónir króna voru þó lagðar í verkefnið sem hingað til hafa þó eingöngu verið nýttar í lögfræðiaðstoð tveggja kvenna.

Svo virðist sem það fjármagn sem hafði verið ákveðið að setja í þetta verkefni eigi eingöngu að fara í lögfræðiaðstoð þótt nú þegar sé heimild fyrir í lögum um að þolendur heimilisofbeldis eigi rétt á réttargæslumanni sér að kostnaðarlausu. Mín nálgun er því gagnvart hæstv. heilbrigðisráðherra og þætti heilbrigðiskerfisins þegar kemur að heimilisofbeldi.

Það er gríðarlega mikilvægt að opinberir aðilar hafi fullnægjandi úrræði þegar kemur að jafnhryllilegum atburðum og heimilisofbeldi er. Þetta á ekki síst við heilbrigðiskerfið. Fyrsti snertipunktur margra þolenda heimilisofbeldis við opinbera aðila er í gegnum heilbrigðiskerfið. Það er mikilvægt að þverfaglegt ferli fari í gang þegar þolandi heimilisofbeldis kemur inn á heilbrigðisstofnun. Þá er ég að tala um aðkomu sálfræðinga, félagsfræðinga, hjúkrunarfræðinga, lækna, lögfræðinga, lögreglu o.s.frv.

Nú þegar höfum við sérhæfða neyðarmóttöku fyrir nauðganir sem fyrir löngu búin að sanna sig. Slík sérhæfing getur verið góð fyrirmynd fyrir sérstök úrræði fyrir þolendur heimilisofbeldis en að sögn þáverandi dómsmálaráðherra átti neyðarmóttakan fyrir nauðgun einmitt að vera fyrirmynd fyrir móttökuna fyrir þolendur heimilisofbeldis. Það er þó hægt að hugsa sér bæði sérstaka móttöku fyrir þolendur heimilisofbeldis eða útvíkka hina sérhæfðu neyðarmóttöku sem er nú þegar til staðar fyrir þolendur nauðgana.

Eins og komið hefur fram m.a. hjá sviðsstjóra slysa- og bráðasviðs Landspítalans er ekki enn að finna formlega sérhæfða neyðarmóttöku fyrir þolendur heimilisofbeldis á Landspítalanum þrátt fyrir áform ríkisstjórnarinnar fyrir hartnær þremur árum.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir stofnun sérhæfðrar neyðarmóttöku á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fyrir þolendur heimilisofbeldis og tryggja henni fjármagn.