131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis.

424. mál
[14:50]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 10. þm. Reykv. s., Ágúst Ólafur Ágústsson, hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurn.

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir stofnun sérhæfðrar neyðarmóttöku á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fyrir þolendur heimilisofbeldis og tryggja henni fjármagn?“

Hér er tæpt á mikilvægu máli sem varðar viðkvæma hlið á heimilislífinu í landinu. Ekki er hægt að neita því að heimilisofbeldi viðgengst í landi okkar ekki síður en í öllum nágrannalöndum okkar þar sem gert er ráð fyrir að á 6–8% heimila sé heimilisofbeldi staðreynd með einum eða öðrum hætti.

Þegar fjallað er um heimilisofbeldi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að þessi afbrigðilega hegðun flokkast í þann stóra hóp kynbundins ofbeldis þar sem í flokkast m.a. mansal, kynferðislegt ofbeldi, kynferðisleg áreitni og fleira.

Þó hver tegund kynbundins ofbeldis lúti að vissu leyti sínum eigin lögmálum verður ekki litið fram hjá því að þessi mál eiga margt sameiginlegt. Á Landspítala – háskólasjúkrahúsi er rekin neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis. Á þeirri móttöku eru auk lækna og hjúkrunarfólks, sem sinna hinum líkamlegu meiðslum, aðrir sérfræðingar sem sinna ekki síður mikilvægum málum sem að þessum þætti lúta. Þannig er hvort tveggja veitt aðgengi að sálfræðiþjónustu og aðgengi að sálfræðingum eða réttargæslumönnum sem annars vegar veita áfallahjálp og sálfræðilega styrkingu og hins vegar sérfræðingar sem veita upplýsingar um réttarfarslega stöðu, vitnavernd, borgaraleg réttindi þolenda og aðstoð við hugsanlegan málarekstur í framhaldinu.

Þetta er í grundvallaratriðum sama þjónusta og þolendur heimilisofbeldis þurfa á að halda í neyðarmóttöku sjúkrahúss en þolendum heimilisofbeldis er einmitt sinnt á þessari móttöku og af sama fólkinu.

Þar að auki má nefna að á slysadeild er starfrækt sérstök miðstöð áfallahjálpar sem rekin er af tveimur hjúkrunarfræðingum sem ætluð er frekar fyrir þolendur heimilisofbeldis.

Fyrir tveimur árum veitti dómsmálaráðuneytið 2 millj. kr. styrk til þolenda heimilisofbeldis á neyðarmóttöku og var hann sérstaklega ætlaður til að styrkja þátt réttargæslumanna í því teymi sem veitir aðstoðina eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda.

Það er ef til vill ekki ástæða að koma á sérhæfðari móttöku á Landspítala – háskólasjúkrahúsi en nú þegar er fyrir hendi. Þetta er sú þjónusta sem þörfin kallar á í báðum þessum svipuðu tilvikum ofbeldis. Ekki hafa komið fram sérstakar beiðnir um frekara fjármagn til styrktar þessari starfsemi en þegar er raunin á, en það verður fylgst með því að þessari nauðsynlegu þjónustu í starfi sjúkrahússins verði haldið og henni tryggt fjármagn.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að í framhaldi af tilraunaverkefni Jafnréttisstofu um sálfræðiaðstoð við gerendur heimilisofbeldis sem kallaðist Karlar til ábyrgðar, sem var samvinnuverkefni Rauða krossins, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar, skipaði félagsmálaráðherra nefnd í janúar 2003 um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum. Nefnd þessi sem í sátu fulltrúar ráðuneyta félagsmála, menntamála, dómsmála, heilbrigðis- og tryggingamála og Sambands íslenskra sveitarfélaga er ætlað að samhæfa aðgerðir stjórnvalda af ólíkum fagsviðum, sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum. Er markmiðið að stjórnvöld fái heildaryfirsýn yfir hvað hefur verið gert á þessu sviði og til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Nefndin hefur lagt áherslu á að viðhalda góðu samstarfi milli frjálsra félagasamtaka og opinberra aðila sem að þessum málum koma. Samráðsfundir hafa verið haldnir, m.a. með fulltrúum Kvennaathvarfsins, neyðarmóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss, ríkislögreglustjóra, lögreglunnar í Reykjavík, Stígamóta, þjóðkirkjunnar og landlæknisembættisins. Í ljós hefur komið mikilvægi þessa samráðs og er stefnt að því að því verði komið í fastmótað form.

Meðal helstu verkefna nefndarinnar er að endurreisa verkefni sem kallast Karlar til ábyrgðar þar sem gerendum heimilisofbeldis er veitt sálfræðiaðstoð til að þeir megi láta af þessari afbrigðilegu hegðun og í stað þess að sú angist og örvilnan sé í fjölskyldum sínum geti þeir staðið undir þeirri ábyrgð að stuðla að hamingjuríku fjölskyldulífi.

Ég vona að þetta hafi svarað að einhverju leyti fyrirspurn hv. þingmanns.