131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis.

424. mál
[14:54]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að hreyfa þessu máli. Ég tel að mikilvægt sé að við ræðum það einmitt í þingsölum vegna þess að heimilisofbeldi er gríðarlega viðkvæmt mál. Fólk telur sig yfirleitt vera í skjóli og í öryggi heimilisins en við heimilisofbeldi hefur það brugðist, öryggisnet fólks hefur brugðist algjörlega. Ég tel því að sérhæfð neyðarmóttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis sé mjög þörf.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað hafi breyst frá því á árinu 2002 þegar ríkisstjórnin tók þá stefnumarkandi ákvörðun að setja á laggirnar slíka neyðarmóttöku, setja í það peninga, þar til núna þegar manni heyrist hæstv. ráðherra vera að draga í land.