131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis.

424. mál
[14:56]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurn frá mér hér á dögunum og gerði grein fyrir því hvernig þessu fjármagni hefði verið varið hjá neyðarmóttökunni, þessum 2 millj. kr. Eftir því sem ég best skildi hann er aðeins búið að ráðstafa þriðjungi þess fjár og allt í lögfræðikostnað. Þess vegna, þegar mér heyrðist hæstv. heilbrigðisráðherra og vinur minn, Jón Kristjánsson, segja áðan að þetta sé sú þjónusta sem þörfin kalli á og ekki hafi verið gerð krafa til frekara fjármagns, þá fékk ég allt í einu ónot fyrir brjóstið af því að ég fór að hugsa: Ef þetta nýtist ekki að fullu í þeirri tilraunastarfsemi sem stendur núna fram til vorsins, þegar á að meta árangurinn og hvernig til hefur tekist; þýðir það þá að þörfin sé ekki fyrir hendi?

Þörfin er fyrir hendi. En áfallaþjónustan sem er líka veitt þarna, áfallahjálpin, hefur nýst þessum þolendum ekki síður en öðrum. Hún hefur verið og heldur áfram á Landspítalanum.

Aðeins varðandi orð fyrirspyrjanda um að við hefðum hvorki neyðarmóttöku, sem við erum öll sammála um að við þurfum að hafa, né að við hefðum sérstakt hegningarlagaákvæði, (Forseti hringir.) þá ætla ég að leyfa mér að leggja minna upp úr því. Konur eiga að njóta verndar 217. og 218. gr. eins og aðrir.