131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Listmeðferð.

449. mál
[15:04]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra tvær spurningar um listmeðferð. Listmeðferð er sjálfstætt meðferðarform þar sem listirnar eru notaðar sem efniviður í meðferðina. Við eigum orðið menntaða listmeðferðarfræðinga á sviði myndlistarmeðferðar, dramaþerapíu eða dramameðferðar. Tónlistarmeðferð er líka þekkt, listmeðferðarfræðingar sem einbeita sér gegnum tónlist, og sömuleiðis danslistmeðferðarfræðingar.

Fyrir hverja er listmeðferð? Hún er fyrir börn og hún er fyrir fullorðna. Í tilfelli fullorðinna er hún t.d. fyrir fatlaða, fyrir fanga, fyrir geðsjúka, fyrir þá sem eiga við ýmsa erfiðleika að stríða, eiga erfitt með nám, hafa átt erfitt með nám kannski í gengum tíðina. Fyrir börn virkar listmeðferð sem öflugt tæki til að vinna gegn námsörðugleikum, hegðunarörðugleikum, misþroska og ýmsu öðru sem hrjáir börn.

Hvar er listmeðferð framkvæmd? Hún er ýmist framkvæmd inni á sjúkrastofnunum, í skólum sem sérúrræði í menntakerfinu, jafnvel í fangelsum og annars staðar þangað sem fólk leitar sem þarf á þessu meðferðarúrræði að halda.

Á Íslandi hefur það verið undir áhuga skólastjóra komið og fjármunum skóla hversu mikið skólar hafa getað nýtt sér þetta meðferðarúrræði en á sjúkradeildum eða sjúkrahúsum eins og Barna- og unglingageðdeild er ákveðin hefð fyrir listmeðferð. Sigríður Björnsdóttir er einn af frumkvöðlum þess að listmeðferð var innleidd á Landspítalanum og Landakoti og hafa hennar eftirkomendur haldið uppi þessu merki.

Hins vegar hefur verið erfitt að skilgreina listmeðferðina í kerfinu. Kannski má segja að listmeðferðarfræðingar hafi ekki getað komið sér almennilega fyrir. En í mínum huga er alla vega ljóst að nauðsynlegt er að stofnanir hafi þetta úrræði því máli skiptir að þessar stéttir njóti starfsréttinda á borð við aðrar því að hér er um sjálfstætt nám að ræða. Í Bretlandi hafa listmeðferðarfræðingar fengið löggildingu og í Skandinavíu er unnið að löggildingu fyrir þá.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hversu algengt sé að opinberar heilbrigðisstofnanir nýti list sem meðferðarform, hvaða stofnanir bjóði helst slíka meðferð og hver virðist þróunin vera í þessum efnum. Loks spyr ég hvað líði vinnu við endurskoðun laga um heilbrigðisstéttir með tilliti til stöðu listmeðferðarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins?