131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Listmeðferð.

449. mál
[15:07]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykv. n. Kolbrún Halldórsdóttir beindi til mín fyrirspurn um notkun listar sem meðferðarforms í heilbrigðisþjónustu. Hún spurði:

1. Hversu algengt er að opinberar heilbrigðisstofnanir nýti list sem meðferðarform? Hvaða stofnanir bjóða helst slíka meðferð og hver virðist þróunin vera í þessum efnum?

2. Hvað líður vinnu við endurskoðun laga um heilbrigðisstéttir með tilliti til stöðu listmeðferðarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins?

Leitað var upplýsinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri um notkun listar sem meðferðarforms og um fjölda listmeðferðarfræðinga við störf. Einnig var leitað upplýsinga hjá Félagi listmeðferðarfræðinga. Fjórir listmeðferðarfræðingar eru starfandi á heilbrigðisstofnunum og starfa þeir allir á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í samtals 2,8 stöðugildum. Þrír þeirra tilheyra geðsviði, þar af er einn á Barna- og unglingageðdeild, einn á Kleppsspítalanum og einn á Hvíta bandinu. Einnig starfar myndlistarmaður á sviðinu. Einn músikþerapisti starfar einnig á Barna- og unglingageðdeild og á geðsviði er listsköpun notuð í ýmsu deildastarfi. Einn listmeðferðarfræðingur starfar við Rjóðrið sem er deild fyrir langveik börn í Kópavogi. Ekki eru sérstakar áætlanir um að auka vægi listmeðferðar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er ekki starfandi listmeðferðarfræðingur í dag. Á dagdeild geðdeildar FSA er list notuð sem hluti af meðferð og þar starfaði listmeðferðarfræðingur fyrir fáeinum árum. Einnig er mikið um að listsköpun sé notuð á hjúkrunarheimilum og ýmsum meðferðarstofnunum sem hluti af þeirri meðferð sem þar er veitt þó ekki sé beinlínis um að ræða listmeðferð sem slíka.

Listmeðferðarfræðingar eru ekki skilgreindir sem heilbrigðisstétt. Hvað varðar endurskoðun laga um heilbrigðisstéttir er enn verið að vinna að endurskoðun laganna. Það mál er komið allvel á veg en vinna stendur yfir í því að ná niðurstöðu og sæmilegri sátt um það mál.

Virðulegi forseti. Það er stefna ráðuneytisins að í framtíðinni verði aðeins löggiltar þær stéttir sem að mestu leyti starfa á sviði heilbrigðisþjónustu. Við ákvörðun um löggildingu stéttar er hugmyndin að höfuðáherslan verði lögð á menntun stéttarinnar, öryggi sjúklinga og hversu sjálfstæð viðkomandi störf eru. Það er einnig stefna ráðuneytisins að mögulegt verði að viðurkenna nám og heiti starfsstéttar sem starfar innan heilbrigðisþjónustunnar án þess að um löggildingu yrði að ræða. Í viðurkenningunni fælist að þeir einir mættu nota starfsheiti stéttarinnar sem hlotið hefðu til þess leyfi ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég vona að svar mitt hafi varpað einhverju ljósi á það málefni sem hér er til umræðu.