131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Listmeðferð.

449. mál
[15:11]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Ég hefði nú gjarnan viljað fá meiri stefnumarkandi tón í þau því ég er þeirrar skoðunar að við ættum að auka hlut listmeðferðar í okkar kerfi umtalsvert, því að ég fullyrði að listmeðferð sé verulega öflug leið til þess að styrkja fólk til bata á ýmsum sviðum og þá kemur hún oft og tíðum í staðinn fyrir lyfjagjafir.

Ég er sannfærð um það og ég hef kynnt mér rannsóknir í þeim efnum að listmeðferð getur sparað umtalsverða fjármuni í lyfjagjafir. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst það mun heilbrigðara ef hægt er að styðja fólk til bata á ýmsum sviðum í gegnum meðferð af því tagi sem virkjar og örvar sköpunarkraft einstaklinganna heldur en með lyfjagjöf.

Ég hef frétt það frá Félagi listmeðferðarfræðinga á Íslandi að þau séu í samstarfi við listmeðferðarfræðinga á Norðurlöndum. Þróunin þar er sú að mikill vilji er til samstarfs um einstaka þætti á milli landanna. Svíar eru komnir lengst og kannski Finnar líka í átt til löggildingar þessara stétta og ég held að listmeðferðarfræðingar á Norðurlöndunum séu með þessi mál mjög á oddinum. Þeir hafa með sér ákveðið samstarf, hittast annað hvert ár. Árið 2006 verður ráðstefna norrænna listmeðferðarfræðinga á Íslandi, í Reykjavík, þannig að ég hvet hv. alþingismenn og hæstvirtan ráðherra til að fylgjast vel með málefnum listmeðferðarfræðingafélagsins til þess að við sjáum þeirra markmið, þeirra stefnumið, og við getum þá mögulega fylgt þeim eftir.

Ég er, eins og ég sagði áðan, þeirrar skoðunar að hér sé um meðferðarform að ræða sem verulega þarf að auka innan kerfisins og ég tel að listmeðferðarfræðingar eigi að fá löggildingu sem heilbrigðisstétt.