131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Hjólreiðabrautir meðfram Vesturlandsvegi.

416. mál
[15:25]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður, sem er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis, ætti að þekkja mætavel lögin sem lúta að þessum hlutum og ég vitnaði til, þ.e. vegalög. Það væri fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður hafi beitt sér fyrir því að fá svör við sömu spurningum í sveitarstjórnum, t.d. í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og hins vegar í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. með hvaða hætti sveitarfélögin ætla sér að vinna að því að tryggja umferð þeirra sem eru hjólandi þótt við gerum ekki ráð fyrir í vegalögum að það sé gert á vegum ríkisins. Það væri fróðlegt að vita um hvaða svör hv. þingmaður hefur fengið á þeim bæjum. (KolH: Ég sit á Alþingi.)

Hv. þingmaður hefur vafalaust mjög góð tengsl inn í stjórn Reykjavíkurborgar og henni ættu að vera hæg heimatökin um það en ekki einungis að beina þessu til samgönguráðherra. Það liggur fyrir hverju vegalögin gera ráð fyrir í þessum efnum.

Ég hef lýst mig viljugan til að eiga gott samstarf við sveitarfélögin um skipulagsmál í kringum þær stofnbrautir sem um er að ræða. Ég hef gefið mitt svar í þessum efnum og hv. þingmaður verður að hafa sín orð um það svar. Sérstakt finnst mér að hv. þingmaður skuli ekki upplýsa okkur um það á Alþingi með hvaða hætti hún hefur beint ábendingum sínum og kröfum til þeirra sem fara með skipulagsmál á þessu svæði. (KolH: … af hálfu ríkisins.)