131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Lýsing vegarins um Hellisheiði.

471. mál
[15:31]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þingmaður Suðurk. spyr í fyrsta lagi:

Eru uppi fyrirætlanir um lýsingu og breikkun vegarins um Hellisheiði?

Vegagerðin fékk haustið 2001 að undangengnu útboði ráðgjafa til að forhanna veglýsingu frá Breiðholtsbraut að Hveragerði auk lýsingar á Þrengslavegi. Gerð var kostnaðaráætlun á grundvelli forhönnunar og var áætlaður kostnaður við veglýsingu meðfram hringveginum milli Breiðholtsbrautar og Hveragerðis um 360 millj. kr. og fyrir Þrengslaveg um 150 millj. kr. á verðlagi í desember 2001.

Nú í febrúar eru um það bil að hefjast framkvæmdir við breikkun vegarins frá Litlu kaffistofunni að nýjum mislægum gatnamótum við Þrengslaveg og jafnframt verður lagður nýr þriggja akreina vegkafli þaðan og til austurs yfir hraunið þar sem hann tengist núverandi vegi neðst í Hveradalabrekku. Auk þess verða aðkoma og tengingar við Litlu kaffistofuna lagfærðar með tilliti til umferðaröryggis. Samtals er áætlað að þessar framkvæmdir kosti ríflega 400 millj. kr. Eins og fram hefur komið áður í þinginu er gert ráð fyrir mislægum gatnamótum sem tengja Þrengslaveg Suðurlandsveginum.

Í samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014, þ.e. langtímaáætluninni, er gert ráð fyrir 100 millj. kr. fjárveitingu á öðru tímabili, þ.e. 2007–2010, og 500 millj. kr. á þriðja tímabili, 2011–2014, sem verja á til breikkunar og endurbóta á veginum. Ekki hefur verið gert ráð fyrir fjármunum til lýsingar á þessari leið í gildandi samgönguáætlun.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður:

Hefur ráðuneytið kynnt sér tilboð Orkuveitu Reykjavíkur um lánveitingu til að lýsa veginn og leggja snjóbræðslukerfi í hluta hans?

Vegagerðinni hefur ekki borist, og ráðuneytinu ekki heldur, neitt tilboð um slíka lánveitingu til þessara verkefna frá Orkuveitu Reykjavíkur þótt óljósar fréttir hafi verið um það í fjölmiðlum. Lagning snjóbræðslu í veginn er væntanlega talsvert mikil framkvæmd og snúin og hefur ekki verið skoðuð sérstaklega af hálfu Vegagerðarinnar.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður:

Kemur til greina að mati ráðherra að fara í samstarf við Orkuveitu Reykjavíkur um þessar framkvæmdir?

Þar sem ekki hefur verið óskað eftir samstarfi og því ekki ljóst í hverju það ætti að felast er ekki hægt að segja neitt til um það á þessari stundu. Það skal tekið fram að mikið framboð er af lánsfé um þessar mundir og alltaf matsatriði hvort og þá hvar ríkið eigi að taka lán auk þess sem ég tel afar mikilvægt að mörgum verkefnum sem blasa við okkur í vegakerfi landsins þurfi að sjálfsögðu að forgangsraða. Það verður væntanlega gert í þeirri samgönguáætlun sem verður hér til endurskoðunar innan tíðar.