131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Lýsing vegarins um Hellisheiði.

471. mál
[15:34]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. fyrirspyrjandi Björgvin G. Sigurðsson benti á, umferð um Hellisheiði er stöðugt að aukast. Ég kann honum bestu þakkir fyrir þessa þörfu fyrirspurn en hins vegar langar mig til að spyrja annars í framhaldi af svari hæstv. samgönguráðherra.

Hann talar um að í fjölmiðlum hafi birst óljósar fréttir. Mér finnast þessar fréttir í raun og veru ekki hafa verið neitt mjög óljósar. Ég var sjálfur á fundi í Þorlákshöfn fyrir ekkert mjög mörgum mánuðum þar sem stjórnarformaður Orkuveitunnar var líka. Hann viðraði þessar hugmyndir og ég man ekki betur en að einhverjir liðsmenn hæstv. samgönguráðherra, úr flokki hans, hafi einnig verið á þeim ágæta fundi og hafi hlýtt á mál stjórnarformannsins. Það voru nokkuð skýr skilaboð sem ég reikna með að þeir hafi tekið heim með sér til Reykjavíkur og jafnvel hvíslað í eyra ráðherrans.

Er það virkilega rétt að þetta hafi ekki verið athugað í neinni alvöru hjá ráðuneytinu? Mér finnst þessi hugmynd mjög spennandi.