131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Förgun sláturúrgangs.

476. mál
[15:40]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra sem lýtur að förgun sláturúrgangs og afdrifum kjötmjölsverksmiðjunnar í Flóa. Það sem ég spyr um er eftirfarandi:

1. Er til skoðunar að taka upp úrvinnslugjald á allar sláturafurðir til að tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll fyrir verksmiðjur á borð við kjötmjölsverksmiðjuna í Hraungerðishreppi?

2. Er eitt af skilyrðum fyrir útflutningi lambakjöts til Evrópulanda að hér starfi verksmiðja sem fargar sláturúrgangi?

3. Er til skoðunar að heimila kjötmjölsverksmiðjum að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr?

4. Stendur til að samræma reglur urðunarstaða sem taka á móti sláturúrgangi þannig að kjötvinnslur og sláturhús landsins sitji við sama borð hvað varðar gjaldtöku og frágang sláturúrgangs?

Á því síðasta er verulegur munur. Hérna er um að ræða mikið umhverfismál þar sem það er mjög brýnt frá umhverfislegum sjónarmiðum. Förgun sláturúrgangs var með þeim hætti sem kjötmjölsverksmiðjan, eða Förgun eins og hún heitir, stendur fyrir. Einnig er að sjálfsögðu um að ræða mikilvægt atvinnumál í byggðunum þar sem starfræksla slíkrar verksmiðju elur af sér ýmis störf.

Eins og greint er frá í Bændablaðinu verður kjötmjölinu lokað. Öllu starfsfólki verksmiðjunnar Förgunar á Suðurlandi var sagt upp um síðustu mánaðamót og blasir ekki annað við en að það hverfi frá störfum og að verksmiðjan fari í þrot. Markaðslegar forsendur þeirrar verksmiðju breyttust mjög við kúariðuna og síðan þá hefur verið ljóst að móta þyrfti nýja stefnu. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Ráðuneyti landbúnaðar- og umhverfismála hafa að mínu mati ekki komið þar nægjanlega að og er hægt að halda því fram að langskynsamlegasta leiðin til að eyða slíkum úrgangi sé að gera það í slíkum verksmiðjum en hins vegar þarf að skjóta undir þær stoðum þannig að þær fái þrifist og að þær hafi í rauninni tilverugrundvöll. Til að mæta þeim vanda sem þessar verksmiðjur eru í og til að gera starfsgrundvöll þeirra eðlilegan þarf að mínu mati að skoða það að taka upp t.d. úrvinnslugjald á allar sláturafurðir til að tryggja það í fyrsta lagi að hann sé urðaður, honum eytt og fargað með skynsamlegum hætti fyrir umhverfið og í öðru lagi væru slíkar verksmiðjur með eðlilegan rekstrargrundvöll en ekki í eilífum kröggum gangandi fyrir stjórnvöld um úrlausnir sinna mála.

Þess vegna hefur líka flogið fyrir að útflutningur á lambakjöti til ákveðinna landa sé skilyrtur við það að hér starfi slík verksmiðja. Er það í sjálfu sér ekkert ótrúlegt þar sem um er að ræða mjög mikilsvert umhverfismál, að sláturúrgangi sé fargað með þessum hætti. Einnig held ég að það sé mikilvægt að reyna að nýta hann sem allra best, svo sem til að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr.

Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra, sérstaklega af því að verksmiðjan er í kröggum, henni verður lokað ef ekki verður gripið til aðgerða.