131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Förgun sláturúrgangs.

476. mál
[15:43]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Kjötmjölsverksmiðjan í Hraungerðishreppi, eða eyðingarverksmiðjan sem hún kannski flokkast frekar undir eftir breytingar, er í eigu öflugasta banka Íslands, KB-banka, um þessar mundir eftir að hún hafði farið í þrot, eins og kunnugt er. Mjög öflugir aðilar stofnuðu til hennar á sínum tíma og málin þróuðust með þeim hætti að upp kom kúariða, allt kjötmjöl féll í verði og Asíumarkaðurinn sem þeir höfðu heyrði þá sögunni til. Þetta er nú sagan.

Hv. þingmaður spyr:

Er til skoðunar að taka upp úrvinnslugjald á allar sláturafurðir til að tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll fyrir verksmiðjur á borð við kjötmjölsverksmiðjuna í Hraungerðishreppi?

Urðun úrgangs fellur undir verksvið umhverfisráðuneytisins. Ég minni á hinn bóginn á að til að hægt væri að innleiða tilskipun Evrópusambandsins 1993/31/EB, um urðun úrgangs, og 2000/76/EB, um brennslu úrgangs, setti Alþingi fyrstu almennu lögin, nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Í lögunum segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft, svo og að draga úr hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra.

Jafnframt er það markmið laganna að dregið verði skipulega úr myndun úrgangsefna eftir því sem unnt er. Þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu og nauðsynlegri förgun úrgangs háttað þannig að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.“

Er þetta í samræmi við skipun nefndar sem ég skipaði, og skilaði af sér skýrslu um eyðingu dýraleifa á síðasta ári.

Á grundvelli laganna hefur umhverfisráðherra sett þrjár reglugerðir, 737/2003, um meðhöndlun úrgangs, 738/2003, um urðun úrgangs, og 739/2003, um brennslu úrgangs. Mér er hins vegar ekki kunnugt um hvort til stendur að taka upp úrvinnslugjald á sláturafurðir en sláturleyfishafar þurfa að greiða sveitarfélögum sérstakt gjald fyrir móttöku sláturúrgangs. Þess vegna getur verið hagkvæmt fyrir sláturleyfishafa að nýta sér eyðingarverksmiðjuna sem þarna stendur.

Næsta spurning er: Er eitt af skilyrðum fyrir útflutningi lambakjöts til Evrópulanda að hér starfi verksmiðja sem fargar sláturúrgangi?

Nei, ekkert slíkt skilyrði er fyrir hendi.

Er til skoðunar að heimila kjötmjölsverksmiðjum að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr?

Reglugerð landbúnaðarráðherra nr. 660/2000, um meðferð og nýtingu á sláturúrgangi og dýraafgangi, fjallar um söfnun, flutning, geymslu, meðferð, vinnslu og nýtingu á slátur- og dýraúrgangi. Reglugerðin nær jafnframt til brennslu og urðunar á slíkum úrgangi. Í reglugerðinni er úrgangur flokkaður í þrjá flokka, sérlega hættulegan úrgang, hættulegan úrgang og hættulítinn úrgang. Lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, kveða á um að hræ dýra, sláturúrgangur og sláturafurðir sem ekki eru nýttar eða eru óhæfar til manneldis skuli meðhöndla, geyma, flytja eða eyða á þann hátt að ekki valdi hættu á útbreiðslu smitefna og annarra skaðlegra efna. Sama gildir um annan úrgang frá dýrum. Afurðir þessar er enn fremur óheimilt að nota sem dýrafóður nema samkvæmt sérstöku leyfi yfirdýralæknis. Ef eigendur kjötmjölsverksmiðjunnar, eða eyðingarverksmiðjunnar sem ég tel að hún heiti nú, ákveða að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr eingöngu úr hættulitlum úrgangi sé ég ekkert því til fyrirstöðu. Öll lög og allar þessar reglugerðir standa til þess að það er hægt í dag, enda hafi verksmiðjan samráð við embætti yfirdýralæknis þar um.

Stendur til að samræma reglur urðunarstaða sem taka á móti sláturúrgangi þannig að kjötvinnslur og sláturhús landsins sitji við sama borð hvað varðar gjaldtöku og frágang sláturúrgangs?

Eins og ég gat um áðan falla reglur um urðunarstaði undir verksvið umhverfisráðherra og er ég af þeim sökum ekki í stakk búinn til að veita svör við þessari spurningu.