131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Förgun sláturúrgangs.

476. mál
[15:49]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Svar ráðherrans var í megindráttum býsna sorglegt enda fólust nánast engin fyrirheit í því um rekstrargrundvöll fyrir verksmiðjur á borð við kjötmjölsverksmiðjuna í Flóa fyrir eyðingarverksmiðjur. Hann svaraði í sjálfu sér engu til um afstöðu sína til þess hvort hann muni beita sér fyrir því að tekið verði upp sérstakt úrvinnslugjald þannig að slíkar verksmiðjur fái þrifist og hafi eðlilegan rekstrargrundvöll. Ætla ég að brýna hann aftur um það að svara því hvert viðhorf hans sé í málinu. Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir sofandahátt í málefnum kjötmjölsverksmiðjunnar, fyrir að hafa ekki svarað ítrekuðum óskum þeirra sem hafa rekið þessa verksmiðju um eðlilegan rekstrargrundvöll fyrir hana. Ástæða er til að syrgja þennan sofandahátt stjórnvalda og brýna þau til að taka til hendinni og beita sér fyrir því að verksmiðjan, sem er mjög mikilvæg í umhverfislegu tilliti, fái starfað áfram og að skoðað verði hratt og ítarlega hvort grundvöllur sé fyrir því að taka upp sérstakt úrvinnslugjald á sláturúrgang þannig að verksmiðjan gæti leitað þangað og rekið sig á slíkum gjöldum, sérstaklega þar sem hún er að svara brýnni þörf fyrir mjög mikilvægt umhverfismál.

Í sjálfu sér er þó gleðilegt að heyra að núna sé hægt að framleiða loðdýrafóður að uppfylltum vissum skilyrðum. Er vonandi að það verði skoðað frekar. Ég vil hins vegar nota tækifærið og skora á hæstv. ráðherrann að beita sér fyrir því að tekið verði upp eða a.m.k. skoðað hvort hægt sé að taka upp sérstakt úrvinnslugjald þannig að slíkar verksmiðjur fengju þrifist. Um er að ræða mjög gott mál og mikilvægt umhverfismál sem ætti að gera það að verkum að allur sláturúrgangur færi inn í slíkar verksmiðjur og kæmi svona út.