131. löggjafarþing — 70. fundur,  9. feb. 2005.

.

. mál
[16:04]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Varðandi síðustu fyrirspurnina verð ég að taka það fram að ráðuneytið hefur ekki ráðstöfunarrétt yfir þessum peningum. Við vorum í viðræðum við lyfjafyrirtækin á síðasta ári um verulega lækkun á lyfjum og það hefur skilað miklum árangri nú þegar. Við höfum markmið um að lyfjaverð verði hér hið sama og í viðmiðunarlöndunum og það er á þeim grundvelli sem við verðum að vinna. Við erum að reyna að lækka lyfjareikning Tryggingastofnunar og í því efni hefur náðst gríðarlegur árangur nú þegar.

Ég fékk upplýsingar um það í morgun að lyf hafa lækkað um 11,6% á ársgrundvelli núna í heildsölunni og gengið hefur 4% áhrif inn í þá lækkun. Þarna verðum við að vinna.

Varðandi hins vegar ferðirnar vil ég undirstrika vilja Læknafélagsins til að vinna að þessu máli og ég tel að forusta þess eigi að vinna að því á sínum vettvangi. Við eigum svo að vinna að því á okkar vettvangi að skýrar og ljósar reglur sem eru uppi á borðinu gildi um þessar ferðir. Við erum að vinna að því á stofnunum okkar og sú vinna gengur vel í samvinnu þeirra aðila sem þar koma að máli. Ég tel að við eigum að halda þessu áfram. Ég vil einbeita mér að þessu verkefni í samvinnu við stéttina en ég vil ekki vera að blanda því í neitt annað í þessari umræðu. Mér finnst það vera hlutverk mitt að vinna að því að skýrar og ljósar reglur gildi (Forseti hringir.) í heilbrigðisstarfseminni um þetta mál.