131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrrh.

[10:35]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér skuli efnt til umræðu um geðheilbrigðismálin og umræðunni gefinn sá tími sem þarf til að ræða jafnmikilvægan málaflokk. Það er brýnt að geta rætt efnislega um þessi mál af yfirvegun því að fyrir utan að takast á um einstaka þætti geðheilbrigðisþjónustunnar skiptir miklu máli að ræða meginatriði þeirrar stefnu sem fylgt er í málaflokknum.

Mig langar fyrst til að taka fram að þegar til lengri tíma er litið er sennilega mesta breytingin og mikilvægasti áfanginn sem náðst hefur á þessu sviði á undanförnum árum að viðkvæmninni eða leyndarhjúpnum sem málaflokkurinn var hulinn árum saman hefur að sumu leyti verið svipt í burtu. Menn eru ekki lengur feimnir við að tjá sig um geðheilbrigðismálin og þeir sem haldnir eru geðsjúkdómum á hinum ýmsu og mismunandi stigum sýna bæði hugrekki og þor með því að fjalla sjálfir um sjúkdóma sína og gera þá sýnilegri en áður var. Þeim ber að þakka og eins þeim fjölmiðlum sem hafa átt þátt í að setja geðheilbrigðismálin á dagskrá með vönduðum hætti.

Alhæfingar eiga síst við þegar geðheilbrigðismál eru annars vegar. Sjúkdómarnir eru margir, aðstæður einstaklinganna mismunandi og mikilvægt að hafa hugfasta nauðsyn fjölbreytilegra úrræða. Fyrir utan að standa vel að rekstri hinna hefðbundnu geðdeilda og tryggja með því hefðbundin úrræði, sem gert hefur verið, er því afar brýnt að hlúa að því sérstaklega sem verið er að gera utan þess sem hefðbundið gæti talist. Á þetta höfum við lagt áherslu undanfarin missiri. Við erum að tala um mjög fjölbreytilegan hóp sjúklinga og við höfum verið að bregðast við með því að sníða meðferðarúrræðin að fjölbreytilegum þörfum sjúklingahópsins, auk þess að leggja áherslu á að gera geðsjúkum kleift að búa við eðlilegar aðstæður úti í samfélaginu. Á þessu tvennu hefur stefnan í geðheilbrigðismálum hvílt. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti sett geðheilbrigðismálin í forgang í þeim skilningi að reynt hefur verið að mæta þörfinni fyrir þjónustu með auknum fjárveitingum og nýjum úrræðum í takt við þær áherslur sem fagfólk hefur talið áhrifaríkastar til að mæta þeim vanda sem virðist fara vaxandi.

Virðulegi forseti. Daglegar umræður um geðheilbrigðismálin hafa oft markast nokkuð af deilum um fjárveitingar. Það er skiljanlegt þar sem þjónustan byggist á þeim. Þótt málaflokkurinn sé vissulega flóknari en svo tel ég rétt að fara yfir nokkur atriði í þessu sambandi og skoða framlögin og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til síðustu missirin.

Á fjárlögum ársins 2002 voru veittar 40 millj. til átaks á sviði geðheilbrigðismála. Fjárveitingin skiptist þannig að 20 millj. kr. tengdust starfsemi sjúkrahúsa og 20 millj. starfsemi heilsugæslustöðva. Á fjárlögum ársins 2003 voru síðan veittar 10 millj. kr. til hálfs árs reksturs hreyfanlegs hjúkrunarteymis. Fagteyminu var ætlað það verkefni að fylgja eftir alvarlega geðsjúkum einstaklingum í samráði við geðhjálp á heimilum þeirra eftir útskrift af sjúkrahúsi og er það skipað tveimur hjúkrunarfræðingum og tveimur öðrum starfsmönnum auk geðlæknisvaktar.

Í fjáraukalögum þetta ár var veitt fé til fjögurra verkefna. Í fyrsta lagi 20 millj. kr. til átaksteymis. Teymi þetta fékk það hlutverk að einbeita sér að bráðatilvikum, stytta bráðabiðlista eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar og veita sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu utan spítalans með heimsóknum til unglinga í vanda. Í öðru lagi var veitt tímabundin fjárveiting, 27 millj., til að efla sérstaklega geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga í samræmi við tillögur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Í þriðja lagi voru veittar 45 millj. kr. sem tímabundið stofnframlag til stækkunar legudeildar barna- og unglingageðdeildar og í fjórða lagi voru veittar 5 millj. kr. á fjáraukalögum 2003 til fjölgunar greiðslueininga sérfræðilækna á sviði barnageðlækninga á því ári. Framlaginu var ætlað að bæta úr brýnni þörf á aukinni þjónustu á sviði barnageðlækninga og einingum barnageðlækninga fjölgað tímabundið það ár um 30 þús.

Á fjárlögum ársins 2004 voru svo veittar 11 millj. kr. til reksturs hreyfanlegs hjúkrunarteymis sem ég gat um hér að framan. Kemur sú fjárhæð til viðbótar 10 millj. kr. framlagi á árinu 2003. Í öðru lagi voru veittar 20 millj. kr. til að hefja rekstur sérhæfðrar deildar fyrir alvarlega geðsjúka en sakhæfa einstaklinga. Í þriðja lagi og í tengslum við þessa fjárveitingu voru veittar 90 millj. sem tímabundið stofnframlag til að koma upp þessari sérhæfðu deild fyrir alvarlega sakhæfa geðsjúka. Í fjórða lagi voru veittar 76 millj. til að efla starfsemi barna- og unglingageðdeildar í samráði við tillögur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Hér er enn verið að leggja fé til að stækka barna- og unglingageðdeildina við Dalbraut, til flutnings göngudeildar í landsbyggðarþjónustu og heimaþjónustu.

Í fimmta lagi voru veittar 20 millj. kr. til að koma á fót samstarfsteymi sálfræðings, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa í heilsugæslunni. Tilgangur með stofnun samstarfsteymisins er að efla heilsugæsluþjónustu með þátttöku þessara fagstétta í fyrsta stigs þjónustu. Sérstaklega er teyminu ætlað að efla þjónustu sem tengist börnum og unglingum með geðræn vandamál og fjölskyldum þeirra þótt verkefni þess sé ekki bundið við þennan hóp einvörðungu. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því hér að samstarfsteymi af þessu tagi tók til starfa í Grafarvogi nú í janúar. Markmiðið er að veita geð- og sálfélagslega þjónustu vegna vanda barna og fjölskyldna þeirra. Er þetta gert í samræmi við áherslur okkar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu en rík áhersla hefur verið lögð á þennan þátt af því að einmitt á þessu sviði hefur skort meðferðarúrræði. Heilsugæslustöðin í Grafarvogi varð fyrir valinu þar sem stöðin sinnir fjölmennasta barnahverfi landsins.

Í sjötta lagi voru veittar 5 millj. kr. til að fjölga greiðslueiningum barnageðlækna varanlega frá og með árinu 2004. Framlaginu var ætlað að bæta úr brýnni þörf á aukinni þjónustu á sviði barnageðlækninga og var einingum fjölgað um 30 þús. í samræmi við þá fjölgun eininga sem áður er getið. Af sömu ástæðu var í samningum við sérfræðilækna sem undirritaðir voru nú í janúar tekið sérstakt tillit til geðsjúkra með því að auka enn svigrúm geðlækna til að sinna samtalsmeðferð við skjólstæðinga sína.

Ef við beinum síðan sjónum okkar að árinu 2005 eru í fjárlögum þess árs veittar 42 millj. kr. til heilsugæslunnar til að efla geðheilbrigðisþjónustu á þessu fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar sem allir eru sammála um að sé afar mikilvægt. Heildarfjárveitingunni, 42,1 millj. kr., var skipt niður á fimm verkefni nýverið og tengjast þau öll grunnþjónustunni. Þar af renna 12 millj. kr. til heilsugæslunnar í Reykjavík til að auka þjónustu geðteymis heimahjúkrunar og til að auka þjónustu á heilsugæslustöð Miðbæjar. 12 millj. kr. verður varið til að standa undir tilraunaverkefni um sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni. Um er að ræða þjónustu og þjálfun starfsmanna vegna meðferðarhópa á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. 9 millj. kr. verða nýttar til að gera þjónustusamninga við heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni. 5,4 millj. kr. renna til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að efla þjónustu við börn með geðræn og sálfélagsleg vandamál og 3,7 millj. kr. renna til Miðstöðvar heilsuverndar barna í þeim tilgangi að efla geðheilbrigðisþjónustu miðstöðvarinnar.

Í öðru lagi voru veittar 12 millj. kr. til þverfaglegs hóps til að mæta bráðavanda geðsjúkra.

Í þriðja lagi 64 millj. kr. til að auka framlag til reksturs sérhæfðrar deildar fyrir alvarlega geðsjúka en sakhæfa einstaklinga, til reksturs vettvangsteymis og til að styrkja geðsvið Landspítala – háskólasjúkrahúss. Tekið skal fram að hér er um endurráðstöfun fjár að ræða, 90 millj. kr. stofnframlag 2004. Þar á meðal var 64 millj. kr. ný fjárveiting en 26 millj. kr. var ráðstafað af byggingarlið heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

Ný framlögð kostnaðaráætlun Landspítala – háskólasjúkrahúss gerir ráð fyrir að spítalinn þurfi 76 millj. kr. til reksturs sértæku geðdeildarinnar, til reksturs vettvangsteymisins og styrkingar geðsviðsins. Ráðuneytið hefur til ráðstöfunar í þessi mál samtals 84 millj. kr.

Við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2005 voru 76 millj. kr. fluttar til Landspítala – háskólasjúkrahúss af safnlið ráðuneytisins til að mæta rekstrinum frá upphafi árs 2005.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið getið um nokkrar þær aðgerðir og framlög til þeirra sem ráðherrar og ríkisstjórn hafa lagt til og Alþingi hefur samþykkt í því skyni að mæta vanda sem upp hefur komið í þjónustunni við geðsjúka til að styrkja þær stofnanir sérstaklega sem hafa veitt geðsjúkum þjónustu og til að beina þjónustunni inn á brautir sem fagfólk, geðsjúkir og aðstandendur telja að skili bestum árangri.

Stærsta stofnunin sem veitir geðsjúkum þjónustu er geðsvið Landspítala – háskólasjúkrahúss en starfsemi þess hefur verið til endurskoðunar undanfarið ár sem og skipulag og fyrirkomulag þeirrar sérhæfðu öryggisdeildar fyrir alvarlega geðsjúka, sakhæfa einstaklinga sem ég minntist á hér að framan. Að teknu tilliti til tillagna sérfræðinga var ákveðið að sérhæfð öryggisgeðdeild verði á Kleppi. Vegna stofnsetningar sérhæfðu öryggisgeðdeildarinnar er nauðsynlegt að endurskoða nýtingu á húsnæði geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss og um leið óhjákvæmilegt að gera ýmsar tilfærslur á starfsemi innan geðsviðsins, þar með talið að flytja starfsemi vímuefnadeildar frá Teigi á Hringbraut og flytja verkefni frá geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss til svæðisskrifstofu fatlaðra. Einnig er nauðsynlegt að gera allnokkrar breytingar og endurbætur á húsnæði geðsviðsins. Þær framkvæmdir eru nú í gangi.

Miðað við að sérhæfða öryggisdeildin taki til starfa innan skamms er byrjað að ráða starfsfólk og undirbúa faglegan rekstur og umfang starfseminnar. Því er stundum haldið fram að skorin hafi verið niður framlög til reksturs geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það er ekki rétt. Framlög til reksturs geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss voru 2,1 milljarður rúmur á árinu 2002, þau voru rúmlega 2,2 milljarðar árið 2003 og í fyrra voru framlögin um 2.360 millj. Á sama tíma voru framlögin til BUGL aukin úr tæpum 309 millj. kr. árið 2002 í tæpar 365 millj. kr. í fyrra. Framlag til geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss hafa þannig verið aukin, einkum til barna- og unglingageðdeildarinnar sem þýðir að þjónusta geðlækna við skjólstæðinga sína hefur verið að aukast bæði innan og utan spítalans.

Af því að minnst er á barna- og unglingageðdeildina er rétt að nefna að nýbygging hennar er í undirbúningi og næsta skref er grenndarkynning. Nokkrar tafir hafa orðið á vinnunni, m.a. vegna þess að hæð byggingarinnar er heldur meiri en gert var ráð fyrir á þessu svæði. Stjórnendur eru þó vongóðir um að þetta hindri ekki framgang málsins og að byggingarframkvæmdir geti hafist seinna á þessu ári.

Þegar rætt er um geðheilbrigðismál verður að minnast á þátt lyfja í þjónustunni. Niðurgreiðsla hins opinbera á lyfjum er að sönnu áhrifarík í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn og gleymist oft þegar rætt er um aðgerðir hins opinbera. Það greiðir t.d. niður geðdeyfðarlyf fyrir 700–800 millj. kr. á ári. Hlutur Tryggingastofnunar ríkisins í öllum geð- og taugalyfjum er tæplega 1.700 millj. kr., þ.e. tveir þriðju alls þess sem rekstur geðsviðs Landspítalans kostar.

Virðulegi forseti. Eitt brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í geðheilbrigðismálunum er að efla forvarnir, meðferð og samþættingu á þjónustu við börn og unglinga sem stríða við geðraskanir og hegðunarvanda. Ég nefndi samhæfingu þjónustunnar vegna þess að reynslan hefur kennt okkur að aðeins þannig getum við bætt þjónustuna. Til að kortleggja og setja fram hugmyndir um hvernig þetta yrði best gert ákvað ég að ráða verkefnisstjóra til heilbrigðisráðuneytisins sem falið var að gera tillögur um samþættingu þjónustunnar sem aftur er liður í stefnumótun fyrir málaflokkinn. Verkefnisstjórinn tók til starfa fyrir réttu ári og skilaði skýrslu með úttekt sinni og tillögum síðari hluta ársins. Ég hef kynnt mér skýrsluna ítarlega og tillögurnar sem þar eru settar fram. Þar er gefið glöggt yfirlit yfir tiltæk meðferðarúrræði og á hverra vegum þjónustan er veitt, eðli þjónustunnar og helstu brotalamir auk tillagna til úrbóta.

Þrír aðstoðarmenn ráðherra hafa fjallað um helstu þætti skýrslunnar undanfarið í því skyni að taka formlega afstöðu til tillagnanna, fara nákvæmlega yfir þær, skoða þær í víðu samhengi og reyna að sjá fyrir áhrif þeirra á þjónustuna og skipulag ef þær koma til framkvæmda.

Samhliða starfi verkefnisstjórans hefur verið að störfum nefnd á mínum vegum til að fjalla um málefni barna og unglinga með geðraskanir og stefnumótun á því sviði. Ég vænti þess að sú nefnd muni á næstunni skila mér tillögum sínum.

Ef ég vík að Arnarholti flutti starfsemin þaðan núna um mánaðamótin og sameinaðist öðrum einingum geðsviðs. Var það í samræmi við stefnu framkvæmdastjórnar Landspítala – háskólasjúkrahúss að fækka útstöðvum spítalans. Síðustu vistmenn Arnarholts fluttust fyrir skemmstu í sambýli að Flókagötu 31. Öllu starfsfólki í Arnarholti hefur verið boðin vinna á öðrum deildum geðsviðs og meiri hlutinn þegið það.

Vistmenn sem dvöldu í Arnarholti voru ýmist geðfatlaðir, þroskaheftir eða fatlaðir eftir vefræna sjúkdóma. Við sameiningu Landspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur árið 2000 dvöldu rúmlega 50 sjúklingar á deild 34 í Arnarholti. Í upphafi árs 2004 hafði þeim fækkað í rúmlega 30 og í desember það ár í 20. Sjúklingar hafa útskrifast á hjúkrunarheimili, á aðrar deildir spítalans á öldrunarsviði, geðsviði og í Kópavogi en einnig á sambýli á vegum geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss eins og t.d. Esjugrund. Samið var um það sambýli fyrir skemmstu.

Ég vil minnast á heilbrigðisþjónustu fyrir fanga en hún er veitt í öllum fangelsum landsins, þ.e. á Litla-Hrauni, Kvíabryggju, kvennafangelsinu í Kópavogi, fangagæslunni við Skólavörðustíg og fangagæslunni á Akureyri. Þjónustan er í flestum tilvikum innt af hendi af heilbrigðisstarfsmönnum nálægra heilbrigðisstofnana sem sinna verkefninu samkvæmt samningi við ráðuneytið. Ráðuneytinu er vel ljós þörf fyrir að þessi þjónusta sé sem öflugust í hvívetna, bæði almenn læknis- og hjúkrunarþjónusta og ekki síst geðlæknaþjónusta. Því hefur verið lögð mikil áhersla á að afla fjárveitinga til að efla geðlæknisþjónustu á komandi ári, bæði við Litla-Hraun og réttargeðdeildina á Sogni en þar vistast einnig sakhæfir fangar um skemmri tíma. Á fimmtu milljón króna hafa verið lagðar fram á þessu ári til að bæta geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni og réttargeðdeildina á Sogni. Ráðuneytið telur að áfram þurfi að vinna að uppbyggingu þessarar þjónustu við fanga á komandi árum, bæði innan þessara stofnana og innan þeirra heilbrigðisstofnana sem þjónustuna veita.

Ég vil víkja að ráðstefnu sem nýlega var haldin í Helsinki og að þeirri nýju hugsun sem þar kom fram. Í janúar var haldin þar á vegum svæðisskrifstofa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fyrsta ráðherraráðstefna um geðheilbrigðismál. Ráðstefnan var um margt afar áhugaverð. Þar voru kynntar nýjar hugmyndir manna um geðheilbrigðisþjónustu í álfunni. Framlag Íslands á fundinum vakti nokkra athygli, geðræktarverkefnið sem þekkt er og ekki síður þau sjónarmið sem Geðhjálp og Hugarafl hafa haldið á lofti. Til að gera langa sögu stutta var á þessum ráðherrafundi samþykkt yfirlýsing ráðherranna um sérstaka aðgerðaáætlun til ársins 2010. Grunntónninn í hvoru tveggja má segja að sé að hverfa frá því að byggja upp stór geðsjúkrahús og flytja þjónustuna frekar nær þeim sem hún á að þjóna, auka þátt og vægi notendanna og aðstandendanna í meðferð og stefnumótun og taka tillit til þess að auka vægi geðheilbrigðissjónarmiða við lagasetningu sem tekur til vinnuverndar og almennrar stefnumótunar í heilbrigðisþjónustunni. Það er alveg ljóst að sú stefna sem mörkuð var á ráðherraráðstefnunni í Helsinki mun hafa áhrif á þróun geðheilbrigðisþjónustunnar hérlendis á næstu árum.

Að henni lokinni kallaði ég fulltrúa þeirra stofnana sem tóku þátt í ráðstefnunni og umfram allt fulltrúa þeirra samtaka sem gæta hagsmuna notendanna til skrafs og ráðagerða um það hvernig við hér á Íslandi getum og ættum að þróa þær hugmyndir sem fram komu á þessari merkilegu ráðstefnu. Ég hef hugsað mér að kalla saman þennan Helsinkihóp aftur á næstunni, einfaldlega vegna þess að nauðsynlegt er að taka mið af þeim vegvísi sem heilbrigðismálaráðherrar Evrópu komu sér saman um í janúar. Við þurfum að endurskoða hlutverk stofnana, við þurfum að gera þjónustuna notendavænni og við þurfum ávallt að huga að geðheilbrigðisþættinum þegar við setjum okkur almenn markmið í heilbrigðisþjónustunni. Ég vil undirstrika að við þurfum að efla samstarfið við fulltrúa notendafélaganna og að því mun ég stefna.

Ég endurtek þakkir mínar fyrir að fá tækifæri til að fara nokkrum orðum um helstu þætti geðheilbrigðisþjónustunnar. Ég vona og veit að þær umræður sem hér eiga eftir að verða munu verða málefnalegar og vísa okkur fram á veginn í þessum mikilvæga málaflokki.