131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrrh.

[11:05]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrslu hans um geðheilbrigðismál sem hann flutti áðan en þar komu einmitt fram þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur lagt í þennan málaflokk á síðustu árum.

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu las ég minningargreinar um mann sem hafði varið stærstum hluta ævi sinnar, yfir 30 árum, á sjúkrahúsi vegna líkamlegrar fötlunar eftir slys á unglingsaldri. Sjúkrahúsið varð heimili hans. Síðustu 10–15 ár ævi sinnar bjó hann hins vegar á sambýli. Minningargreinarnar báru þess ljós merki að það var ekki fyrr en hann öðlaðist sjálfstæða búsetu utan sjúkrahússins sem hann fór að verða virkur þátttakandi í lífinu, varð gerandi í stað þess að vera þiggjandi og fór að nýta styrkleika sína til að vinna að þeim þröskuldum sem fötlun hans setti honum.

Þessi saga er gott dæmi um þær hugmyndafræðilegu breytingar sem orðið hafa í þjóðfélaginu á síðustu áratugum gagnvart þeim sem ganga ekki heilir til skógar og þurfa stuðning velferðarþjónustunnar. Þar fara sjónarmið um mannréttindi og mannvirðingu saman við hagkvæmnissjónarmið um að rétt og skynsamlegt sé að stuðla að því að fólk búi á eigin heimili eins lengi og kostur er með þeim stuðningi sem þarf. Þessi viðhorf hafa náð til þeirra sem eru líkamlega sjúkir eða fatlaðir. Þau hafa hins vegar ekki í sama mæli rutt sér rúms innan geðheilbrigðisþjónustunnar. Stofnanamenning hefur verið ríkjandi innan þess geira heilbrigðisþjónustunnar allt fram á þennan dag þótt ákveðin skref megi greina í rétta átt á síðustu árum eins og kom einnig fram í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra áðan.

Tölur um stöðu geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi benda til að ekki hefur vantað viljann til að gera vel, en áherslurnar hafa þó verið einhæfar. Þannig eru hlutfallslega fleiri rými fyrir geðsjúka á stofnunum hér á landi en á öðrum Norðurlöndum, t.d. helmingi fleiri en bæði í Danmörku og Noregi. Samt hefur sjúkrarýmum fyrir þennan sjúklingahóp hér á landi fækkað um 25% frá árinu 1997. Hið sama á við um legutíma geðsjúkra á spítölum sem er lengstur hér á landi af öllum Norðurlöndum. Meðallegutími á Íslandi er 55 dagar en hann er stystur í Noregi fyrir sama sjúklingahóp, 22 dagar, eða 40% af því sem tíðkast hér á landi.

Þannig er bæði neysla og kostnaður vegna notkunar geðlyfja mestur hér á landi af Norðurlöndum, sem bendir til þess að aðgengi fólks að meðferð með lyfjum er gott, en hvort tveggja er þó merki um of einhæfar áherslur í geðheilbrigðismálum. Við leggjum of mikla áherslu á stofnanaþjónustu við geðsjúka í stað þess að styðja þá til aukinnar sjálfshjálpar með áherslu á þjónustu og stuðning utan stofnana með búsetu á heimilum, sambýlum og öðrum sérhæfðum meðferðarúrræðum. Þjónusta sjúkrahúsa á fyrst og fremst að vera bráðaþjónusta, aðra meðferð á að veita utan stofnana og á göngu- og dagdeildum. Við leggjum of mikla áherslu á meðferð með lyfjum á kostnað viðtalsmeðferðar og annarrar stuðningsmeðferðar sem rannsóknir sýna að beri jafngóðan ef ekki betri árangur, ekki síst þegar bæði meðferðarúrræði eru notuð samhliða. Þannig niðurgreiðir TR eingöngu meðferð geðlækna en sambærileg viðtalsmeðferð á vegum sálfræðinga er ekki niðurgreidd.

Þá er einnig vert að draga fram að ýmislegt bendir til að mikla fjölgun öryrkja síðustu ár megi rekja til fjölgunar þeirra sem búa við geðsjúkdóm og njóta örorkulífeyris og örorkubóta. Leiddar hafa verið líkur að því að þeir sem búa við skerta starfsgetu vegna geðsjúkdóma hafi í auknum mæli,vegna aukinna krafna um vinnuframlag í samfélaginu, hætt á vinnumarkaði og sótt um bætur hjá TR. Velferðarkerfið virðist því grípa þá fljótt og veita þeim nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning, en á hinn bóginn má velta fyrir sér hvort endurhæfingarúrræði skorti.

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, hefur metið það svo að árlegur kostnaður samfélaga innan Evrópusambandsríkja vegna geðsjúkdóma, sé varlega áætlaður um 3–4% af þjóðarframleiðslu. Þá er tekið tillit til kostnaðar vegna meðferðar, minnkaðrar framleiðni og fráveru frá vinnu, örorkulífeyris, örorkubóta og minni lífslíka. Ef við yfirfærum þessar tölur á íslenskar aðstæður, þýðir það að árlegur samfélagslegur kostnaður vegna geðsjúkdóma á Íslandi sé um 25–30 milljarðar kr. Beinn kostnaður vegna meðferðar er hins vegar aðeins lítill hluti af þessu og má m.a. benda á breska rannsókn sem bendir til þess að beinn kostnaður vegna þunglyndis sé eingöngu 4%, annað er samfélagslegur kostnaður.

Á ráðstefnu heilbrigðisráðherra í Evrópu um geðheilbrigðismál sem haldin var á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Helsinki í síðasta mánuði, var brotið blað í geðheilbrigðismálum. Þar skuldbundu ráðherrarnir sig til að leggja áherslu á þjónustu við geðsjúka og geðfatlaða utan stofnana í samfélaginu, m.a. í þeim tilgangi að veita þeim betri lífsgæði, auka sjálfsákvörðunarrétt þeirra og virkja til þátttöku í lífinu. Þessi ráðstefna mun, ef að líkum lætur, hraða nauðsynlegum áherslubreytingum í geðheilbrigðisþjónustu hér á landi og mátti heyra það á hæstv. heilbrigðisráðherra áðan.

Fyrir nokkru heimsótti ég öll sambýli fyrir geðsjúka í Reykjavík. Var ég sannfærð fyrir, en þessar heimsóknir staðfestu í mínum huga mikilvægi þess að færa þjónustu við geðsjúka frá stofnanaþjónustu í ýmis búsetuform utan stofnana. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að búseta í eigin herbergi með eigin hluti í kringum sig, í sambýli við aðra í sambærilegri stöðu og með góðum stuðningi fagfólks og annars starfsfólks, er mun heppilegri kostur en að búa á stofnunum um lengri eða skemmri tíma. Í þessum sambýlum voru einstaklingar, margir mjög veikir, sem höfðu áður dvalið langdvölum innan stofnana. Þeir væru þar enn ef þessi kostur stæði þeim ekki til boða. Margir þeirra eru í nánu sambandi við heilbrigðisstofnanir og þurfa að vistast þar tímabundið ef ástand versnar, en þeir hafa festu í þessum sambýlum.

Það er samdóma álit fagfólks að félagslegur stuðningur við geðfatlaða til sjálfstæðrar búsetu eykur sjálfstæði þeirra og vellíðan, dregur úr tíðni innlagna og dregur úr tíðni innlagna á geðdeildir. Þannig er það bæði hagkvæmara þjónustuform og heppilegra frá meðferðarlegu sjónarmiði en sjúkrahússvist, að því gefnu að sjúkdómurinn sé í því jafnvægi að viðkomandi geti verið utan stofnana.

Virðulegi forseti. Í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið um vanda geðfatlaðra og geðsjúkra haustið 2003 dró ég fram upplýsingar frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, en þar biðu um 90 geðfatlaðir eftir viðeigandi úrræðum utan spítala, á hjúkrunarheimilum, sérhæfðum búsetuúrræðum, sambýlum eða vönduðum heimilum. Mikill skortur hefur verið á slíkum úrræðum. Ég bendi á að í svari hæstv. félagsmálaráðherra við fyrirspurn minni um búsetu geðfatlaðra á síðasta þingi, kom fram að um 90 geðfatlaðir einstaklingar eru á biðlista eftir félagslegum úrræðum utan stofnana, þar af 53 í heimahúsum og 26 í sjúkrastofnunum. Samt passa þessar upplýsingar ekki alveg saman því þeir voru 90 inni á Landspítala einum saman. Vegna skorts á öðrum úrræðum að sjúkrahússvist lokinni eru þessir einstaklingar sviptir möguleikum á að njóta meiri lífsgæða við aðstæður sem henta þeim betur og eru þar að auki ódýrari fyrir samfélagið.

Það er ljóst að verulegur munur er á kostnaði við að veita sama einstaklingi þjónustu utan eða innan sjúkrahúsa. Samkvæmt stjórnunarupplýsingum frá LSH frá árinu 2003, var kostnaðurinn á legurými á geðdeildum spítalans að lágmarki 29 þús. kr. á dag, eða 10,6 millj. kr. á ári. Til samanburðar er kostnaður ríkisins milli 1 og 2 millj. kr. ári vegna rýmis á sambýli og 4,5 millj. kr. á hjúkrunarheimilum. Breyttar áherslur í málaflokknum eru því ekki aðeins æskilegar út frá mannúðarsjónarmiðum, heldur ekki síður þjóðhagslega hagkvæmar. Þetta er það sem kallað er „win-win situation“. Allir eru betur settir eftir og svigrúm skapast til að veita öðrum þjónustu fyrir það fé sem sparast.

Nærtæk skýring á þessum seinagangi á áherslubreytingu í málaflokknum er að ábyrgð á málefnum geðfatlaðra er skipt á milli tveggja ráðuneyta. Þannig eru geðfatlaðir sem eru á sjúkrahúsum skjólstæðingar heilbrigðisstofnana, sem lúta heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, en málefni geðfatlaðra utan sjúkrahúsa falla undir félagslega kerfið samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, sem eru á forræði félagsmálaráðherra. Ábyrgðinni er því skipt og oft vísar hver á annan með þeim afleiðingum að þeir sem þjónustuna þurfa geta orðið undir og að auki verði kostnaður meiri fyrir samfélagið og allir tapa.

Það er því ánægjulegt að hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra hafa brugðist snarlega við þessum upplýsingum og hafa skipað starfshóp til þess að greiða fyrir auknum úrræðum í félagslegri þjónustu við geðsjúka og fjölga plássum á sambýlum.

Það má hins vegar ekki skilja orð mín svo að ekkert hafi áunnist í geðheilbrigðismálum hér á landi hin síðari ár. Því fer fjarri. Þannig hafa frjáls félagasamtök sjúklinga og aðstandenda þeirra tekið höndum saman, með góðum stuðningi fagfólks, einkafyrirtækja og stjórnvalda, og breytt umræðu um geðheilbrigði og geðheilbrigðismál með þeim árangri að landlægir fordómar gagnvart geðsjúkum hafa verulega minnkað. Verkefnið Geðrækt, sem var grasrótarstarf en er nú undir Lýðheilsustöð, hefur unnið kraftaverk í viðhorfsbreytingu í samfélaginu gagnvart geðsjúkum og tek ég þar undir með hæstv. heilbrigðisráðherra áðan.

Í þessu sambandi get ég þó ekki stillt mig um að nefna hlut Morgunblaðsins og ritstjóra þess, Styrmis Gunnarssonar, sem hafa ötullega veitt málefnum geðsjúkra stuðning með ýmsum hætti með umfjöllun sinni, sem hefur verið málaflokknum til framdráttar. Þeir sem láta sig málið varða hafa alla tíð getað treyst á stuðning og velvilja blaðsins og ritstjóra þess. Það ber sérstaklega að þakka.

Velvilji hæstv. heilbrigðisráðherra hefur einnig verið sýnilegur í málaflokknum. Þannig hefur t.d. verulega aukið fjármagn verið veitt til tiltekinna verkefna á síðustu árum, m.a. vegna stuðnings og þjónustu við börn og ungmenni sem glíma við geðvandamál og tilraunaverkefni í heilsugæslu í geðverndarmálum, sem nýlega voru sett á laggirnar lofa góðu. Í þessu sambandi ættum við Íslendingar að líta til Noregs en þeir hafa sett upp staðbundnar geðheilsustöðvar sem veita fjölbreytta og alhliða þjónustu við geðsjúka, með það að markmiði að styðja þá til aukinnar sjálfshjálpar utan stofnunar. Það hefur komið fram hjá ræðumönnum á undan mér að Norðmenn hafa náð verulega góðum árangri í geðheilbrigðismálum.

Þótt mér hafi verið tíðrætt um áherslubreytingar í þjónustu við geðsjúka í ræðu minni megum við ekki gleyma því að geðheilbrigðisþjónustan snýr ekki eingöngu að meðferð og stuðningi við þá sem glíma við geðsjúkdóma. Geðheilbrigðisþjónusta snýr ekki síður að geðrækt, þ.e. að efla einstaklinginn til að taka á heilbrigðan, jákvæðan og uppbyggilegan hátt á verkefnum lífsins, að forvörnum, að berjast gegn fordómum, mismunun, á félagslegri útskúfun geðsjúkra og að endurhæfingu þeirra.

Að lokum, virðulegi forseti. Það er mikil gerjun í gangi í þessum málaflokki hér á landi í dag. Nú ríður á að virkja þessi öfl og færa þjónustuna í þann farveg að þeir sem hennar njóta og aðstandendur þeirra finni að viðhorfsbreytingin sem við köllum eftir leiði til raunverulegra breytinga á aðstæðum þeirra sem byggist á skilningi á þörfum þessara einstaklinga. Ég legg þó ríka áherslu á að við föllum ekki í þann pytt sem margar þjóðir hafa lent í, sem er að draga úr áherslu á stofnanaþjónustu án þess að nægileg úrræði utan stofnunar hafi verið byggð upp. Þá er verr af stað farið en heima setið.