131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrrh.

[11:37]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. heilbrigðisráðherra þá ítarlegu skýrslu um geðheilbrigðismál sem hann flutti okkur. Mér finnst það liggja í augum uppi að þörf sé á lengri tíma, eins og hér er gert ráð fyrir, til að fjalla um svo mikilvægan málaflokk. Ég ætla líka, vegna þess að umræðunni er gefinn lengri tími en venja er, að þá sé síður hætta á að umræðan sé í einhvers konar upphrópana- eða fyrirsagnastíl, eins og hefur sýnt sig það sem af er umræðunni. Ég tel að geðsjúkir eigi annað og betra skilið og málefnaleg umræða um þessi mál sé mjög nauðsynleg.

Ráðherra gerði í ræðu sinni ítarlega grein fyrir auknum framlögum til geðheilbrigðisþjónustunnar á síðustu árum og að mínu mati eru þær fjárhæðir vitnisburður um þann forgang sem geðheilbrigðismál hafa verið sett í en þau eru líka til marks um síaukin framlög til heilbrigðismála, öfugt við það sem allt oft er sagt eða gefið til kynna, að verið sé að skera niður til þess málaflokks.

En ráðherra gerði jafnframt í meginatriðum grein fyrir þeirri stefnu sem fylgt er í þessum málaflokki. Hann gerði og grein fyrir nýjum úrræðum í þjónustunni í takt við áherslur sem fagfólk á þessu sviði, geðsjúkir og líka aðstandendur þeirra hafa talið árangursríkastar.

Mikil áhersla er lögð á að efla og auka fyrsta stigs þjónustu og sérlega þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir og með geðræn vandamál og einnig við fjölskyldur barnanna. Forsendur fyrir mati á umfangi viðfangsefna geðheilbrigðisþjónustan eru m.a. að byggt hefur verið á erlendum upplýsingum, að 85% allra barna séu í góðu andlegu ástandi og hafi ekki neina þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu. Gengið er út frá því að 12–15% barna séu með vægar geðraskanir og þurfi aðstoð og eigi að rúmast innan hinnar almennu þjónustu heilbrigðiskerfisins, félagslega kerfisins og skólakerfisins. Það á vissulega að sinna öllum börnum og unglingum.

Ein af forsendunum er að 2–5% barna eigi við alvarlegar hegðunar- eða geðraskanir að stríða og að þeim nægi ekki almenn þjónusta, ekki sú almenna þjónusta sem skólar, heilsugæsla og félagskerfið veitir. Þessi börn þurfa sérhæfðari aðferðir og mun öflugri úrræði en grunnþjónustan getur veitt. Það eru einmitt þessi börn sem við tölum gjarnan um sem áhættuhóp. Þessi börn eru í áhættu með að misfarast í lífinu og ná ekki að lifa því til fulls.

Varðandi þjónustu fyrir þessi börn lengi verið bent á þörfina fyrir heildstæða skipulagningu á geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga með geðraskanir. Í gagnmerkri og umbúðalausri skýrslu verkefnisstjóra um samhæfingu í málefnum barna og unglinga með geðraskanir er þessu viðfangsefni gerð mjög góð skil. Eins og fram kom fyrr í dag í ræðu eins hv. þingmanns var fjallað um skýrsluna á mjög fjölmennri ráðstefnu fagfólks á þessu sviði sem haldin var á Grand hóteli.

Í skýrslunni er m.a. gerð grein fyrir því fyrirkomulagi sem við höfum búið við, fyrirkomulagi sem ég vil kalla kerfisvillu. Eina af þeim kerfisvillum leiddi af nýrri reglugerð um sérfræðiþjónustu grunnskóla sem sett var samhliða því að sveitarfélögin tóku við grunnskólunum fyrir um tíu árum. Svo virðist sem þrátt fyrir yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna hafi á einhvern hátt áfram verið ætlast til að ríkið mundi sinna meðferðinni, að það héldi áfram að sinna meðferðarþætti þjónustunnar, sem sérfræðiþjónusta skóla sem ríkið rak hafði sinnt fram að því. Villan var sú að það voru ekki gerðar neinar ráðstafanir til að tryggja að stofnanir ríkisins, heilsugæslan eða barna- og unglingageðdeild tækju við hinni nauðsynlegu þjónustu.

Hverjar urðu afleiðingarnar af þessari breytingu, þessari nýju reglugerð frá 1995 eða 1996? Afleiðingarnar urðu mun lengri biðlistar eftir vistun á sérhæfðustu stofnununum sem við rekum samhliða því að settar voru reglur um að einungis tilteknar greiningar gæfu aðgang að greiðslu sérstaks kennslukostnaðar úr jöfnunarsjóði og líka greiðslu umönnunarbóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Fyrir þessa kerfisbreytingu, fyrir þessa reglugerð, var megináherslan í þjónustunni á greininguna en íhlutunin og meðferðin urðu út undan.

Ástæðan fyrir því, frú forseti, að ég hef orð á þessu er þríþætt. Í fyrsta lagi vil ég sýna með glöggu dæmi þörfina á því að við byrgjum brunninn. Mér dettur í hug, um leið og ég segi þetta, að það er gjarnan haft orð á því í norrænu samstarfi félaga á borð við Heimili og skóla, að börn eru ekki endurunnin. Þau ganga einu sinni í gegnum hvert aldursskeið og verða ekki endurunnin. Umönnun þeirra getum við ekki sinnt eftir á.

Í öðru lagi hef ég orð á þessu til að árétta þörfina fyrir samhæfingu, samvinnu þjónustu- og fagaðila og heildstæða sýn á vinnu þeirra ráðuneyta sem þjóna börnum og unglingum með geðraskanir. Einnig er brýnt að réttur taktur sé í samstarfi ráðuneytanna, ríkisins og sveitarfélaganna.

Í þriðja lagi, frú forseti, hef ég orð á þessu dæmi til að sýna fram á þörfina fyrir þær áherslur í stefnumörkun og fjárveitingum til málaflokksins sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir í ræðu sinni. Til marks um þær áherslur eru auknar fjárveitingar til heilsugæslunnar, grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins, til að efla þverfaglegt samstarf og fyrsta stigs þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir og jafnframt þjónustu við börnin og fjölskyldur þeirra. Áhersla er lögð á samþættingu geð- og sálfélagslegrar þjónustu vegna vanda barna og fjölskyldna með sérstaka áherslu á fyrirbyggjandi starf og að börn fái þjónustuna sem yngst og fjölskyldurnar sem fyrst.

Með því að grípa inn í fyrr en við höfum gert má koma í veg fyrir að málin þróist á verri veg og einnig forðast aukið álag á dýrari úrræði, sérhæfð og dýrari úrræði eins og t.d. barna- og unglingageðdeildina. Í þeirri stefnu felst, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra kom inn á, viðurkenning á mikilvægi sterkrar tengslamyndunar barna í bernsku við foreldra sína, mikilvægi þess að styrkja börnin sem best og aðstoða foreldrana.

Sjálfstætt starfandi sérfræðingar hafa sinnt mikilvægu hlutverki í vinnu með börn og unglinga með geðraskanir mörg undanfarin ár, m.a. vegna þess að grunnþjónustan hefur ekki virkað sem skyldi, svo sem ég hef þegar fjallað um. Þeir sérfræðingar eru aðallega barnalæknar, barna- og unglingageðlæknar, sálfræðingar og félagsráðgjafar. En einungis læknar starfa eftir samningum við Tryggingastofnun ríkisins og því er annars vegar ljóst að sérfræðingar á þessu sviði starfa á mjög mismunandi kjörum og svo hitt að þjónusta þessara sérfræðinga er mjög misaðgengileg fyrir börn og fjölskyldur þeirra.

Einmitt þetta hefur mörg undanfarin ár verið eitt af áhersluatriðum samstæðrar og háttvirtrar heilbrigðis- og trygginganefndar hér á Alþingi, þ.e. að bæta aðgengi að öðrum sérfræðingum og ekki síst að þjónustu sálfræðinga, bæði innan og utan heilsugæslunnar. Ætla má að það sé öðru fremur til þess fallið að draga úr notkun þunglyndislyfja sem nú nýlega hefur enn og aftur verið varað alvarlega við.

Frú forseti. Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að fagna því sérstaklega að nú er að hefjast rekstur sérhæfðrar öryggisdeildar fyrir alvarlega geðsjúka en sakhæfa einstaklinga. Hæstv. ráðherra sagði frá því í ræðu sinni fyrr í þessari umræðu og hann sagði líka frá því að byrjað væri að ráða starfsfólk og undirbúa faglegan rekstur og umfang starfseminnar sem ákveðið var að ráði sérfræðinga að verði á Kleppi. Hins vegar liggur það nú fyrir og ekki síst eftir fund sem við áttum í allsherjarnefnd í morgun með nýjum forstöðumanni Fangelsismálastofnunar að andstætt við það sem við mörg töldum er þessari starfsemi ekki ætlað að þjónusta geðsjúka fanga. Þrátt fyrir aukna heilsugæslu og almenna heilbrigðisþjónustu við fanga þarf að gera betur í geðheilbrigðisþjónustu við þá og að mínu mati þarf að tryggja að geðsjúkir fangar geti afplánað refsingu sína á viðeigandi sjúkrastofnun. Þetta er vandi eða viðfangsefni sem enn er ekki að fullu leyst. Við verðum að ráða bót á þessu án frekari tafa og mér sýnist einsýnt að það verði gert í tengslum við þær breytingar sem standa til á lögum um fullnustu refsinga og ýmsar úrbætur á aðbúnaði fanga sem stefnt er að samhliða.

Mig langar að lokum að þakka þeim einstaklingum sem hafa sýnt hugrekki, komið fram og fjallað um sjúkdóma sína á þessu sviði, og líka félögum þeirra og aðstandendum. Framlag þeirra vegur þungt í því að auka skilning og eyða gamalgrónum fordómum í garð geðsjúkra sem ég held að við getum öll verið sammála um að hefur verið einn versti óvinur málaflokksins áratugum saman.