131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrrh.

[11:53]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það eru fjölmargir Íslendingar, börn, ungmenni, eldra fólk og reyndar fólk á öllum aldursstigum, sem þekkja geðraskanir af eigin raun eða meðal nákominna ættingja og vina. Hópurinn er líklega stærri en við þekkjum. Geðröskun er ekki ávallt sjúkdómur í merkingu sem almenningur eða jafnvel læknar skilgreina. Geðröskun á einhverju tímabili ævinnar hendir okkur allflest og má m.a. rekja til ýmiss konar áfalla, sorgar, félagslegs umhverfis, svo sem eineltis, streitu eða kvíða fyrir verkefnum.

Leitt er að vita til þess að í okkar litla þjóðfélagi er til fólk sem hefur af ýmsum ástæðum ekki getu, þekkingu eða jafnvel dómgreind til að meta hvenær það er hjálpar þurfi eða hvernig unnt sé að komast úr vítahring vanlíðanar á sálu eða geðraskana. Aðeins það að viðurkenna fyrir öðrum að maður eigi í vandræðum með sálartetrið sitt er erfitt, og skilningur og umburðarlyndi á slíkri vanlíðan er enn minni en ef fólk er með tannpínu eða liggur í flensu. Þolendur geðraskana einangrast að auki mun meira félagslega en fólk með aðra sjúkdóma.

Heilbrigðistryggingakerfið okkar er barn síns tíma, a.m.k. í stuðningi við fólk með geðraskanir, og í raun hvetur kerfið ekki til aðstoðar fyrr en viðkomandi er orðinn svo mikill sjúklingur að hann, sakir andlegrar líðanar og atvinnuleysis, kemst á örorkubætur. Því má segja að möguleikar á örorkubótum sé ávísun á ódýra þjónustu fyrir geðsjúklinga og á stundum nánast hvatning til að sækja um bætur í stað þess að halda sjálfstæði sínu og atvinnu með tímabundinni opinberri fjárhagslegri aðstoð sem er miðuð við fjárhag eða aðrar aðstæður viðkomandi.

Þótt fram hafi komið í þessari umræðu að Íslendingar eigi hlutfallslega flest sjúkrarúm fyrir geðsjúka miðað við nágrannalönd og að meðallegutími sé einnig lengstur hérlendis má ekki einfaldlega álykta sem svo að við séum eftirbátar þessara granna okkar. Sem dæmi má spyrja hvort geðsjúklingar séu veikari við innlögn en gengur og gerist hjá samanburðarþjóðum. Þróun í göngudeildarþjónustu á sjúkrahúsum og utan þeirra, á einkastofum lækna, ekki síst geðlækna, og flestra á samningi við tryggingar, er ekki aðeins leið til sparnaðar heldur auðveldar sjúklingum að eiga eins eðlilegt líf og unnt er. Fjöldi sjúkrarúma er ekki endilega mælikvarði á skilvirka starfsemi og meðferð heldur verður að líta til annarra þátta, svo sem valkosta fyrir mjög veika einstaklinga.

Við verðum sífellt að fylgjast með öllum úrræðum í takt við tímann. Ýmsir hópar sem ekki er sinnt sem skyldi eru lítið sýnilegir og halda sig til hlés. Meðal hópa sem þó eru eitthvað sýnilegir má nefna marga sjúka einstaklinga sem ganga um götur Reykjavíkur og víðar og eru bæði sjálfum sér og öðrum hættulegir sakir geðraskana. Þetta fólk fær ýmist ekki inni á viðeigandi stofnun eða það er þarna úti í samfélaginu þar sem því bjóðast ekki viðhlítandi úrræði. Enn fremur má ætla að aldraðir mjög sjúkir einstaklingar séu vistaðir á bráðageðdeildum og fái ekki inni á almennum hjúkrunarstofnunum vegna röskunar á högum þeirra sem fyrir eru. Taka t.d. flestar geðhjúkrunardeildir í nágrannalöndum við svona sjúklingum en á Íslandi er þeim haldið inni á bráðadeildum.

Hópur fólks sem barist hefur af krafti fyrir bættri geðheilsu árum saman en hefur gefist upp á kerfinu eða hefðbundnum meðferðarúrræðum er líklegast einnig mun stærri en áætlanir segja til um.

Á síðustu árum hefur umræða um geðraskanir og geðsýki aukist til muna og fjölmargir rita greinar í dagblöð og önnur rit um þessi mál. Meðal þeirra er Ingólfur Sveinsson geðlæknir. Hann sagði í Morgunblaðinu í nóvember um ástæður mikillar fjölgunar öryrkja að læknar Tryggingastofnunarinnar hafi sjálfir bent á að mikil fjölgun öryrkja á síðustu árum eigi sér rót meðal ungs fólks og nauðsynlegt sé að sporna við fjölgun öryrkja með geðræn vandamál á þeim aldri, meðhöndla geðröskun á fyrstu stigum og leggja áherslu á starfsendurhæfingu þeirra sem hafa eða eru að missa fótfestu á vinnumarkaði. Enn fremur er reynslan að það sé fremur sjaldgæft að þeir sem hafa komist á örorku komist af henni aftur jafnvel þótt heilsan batni. Örorkuvítahringurinn gerir vart ráð fyrir að fólk nái smám saman að brjóta sér leið út úr honum. Núverandi trygginga- og örorkukerfi mætti kalla nánast gildru þegar menn eru einu sinni komnir inn í það kerfi.

Ég nefni nokkur dæmi aftur.

Tryggingalæknir hefur opinberlega talið sjúkradagpeninga skammarlega lága. Þegar fólk verður fyrir tímabundnum veikindum hverfa ekki fjárskuldbindingar þess sem yfirleitt eru miðaðar við laun viðkomandi en ekki er gert ráð fyrir hugsanlegum sjúkdómum og fjárhagserfiðleikum samhliða þeim. Hafi fólk ekki langa og góða atvinnusögu og ekkert stéttarfélag bak við sig eru sjúkradagpeningar oft einu tekjurnar, þ.e. um 25.500 kr. á mánuði. Vegna þessa verður til hvati til að leita sér betra fjárhagslegs öryggis og komast á örorkubætur. Sem afleiðing af núverandi fyrirkomulagi eru örorkubætur sagðar kostakjör miðað við sjúkradagpeninga þótt lífeyrir með tekjutryggingu nemi aðeins rúmlega 70 þús. kr. á mánuði eftir skatta. Viðbótarhlunnindi fylgja þó örorkubótum eins og kunnugt er.

Reglur um sjúkratryggingar greiddar frá Tryggingastofnun virðast vera eins konar eftirspurnarverðstýringartæki sem ekki er síst beint að efnaminni einstaklingum þar sem tryggingarnar þrýsta á ákveðið val með því að styðja ekki fjárhagslega við meðferð allra við sama greiðsluhlutfall. Þar bendi ég á samning Tryggingastofnunar þar sem ýtt er undir að menn leiti til heimilislækna fremur en sérfræðinga. Enn fremur er mjög þröngur kvóti sjálfstætt starfandi sérfræðinga fyrir fjölda sjúklinga og greiðslur frá Tryggingastofnun.

Fjölmargir geðsjúklingar eru andsnúnir því að taka inn geðlyf ef annar kostur er fyrir hendi. Þetta á ekki síst við um fólk með geðraskanir á byrjunarstigi. Í dag gefst ekki kostur á stuðningi frá Tryggingastofnun til þeirra og ekki heldur þeirra sem óska eftir sálfræðiþjónustu.

Þrátt fyrir mikla notkun geðlyfja verður þó að telja þjóðhagslega heppilegt að sjúklingar fái lyfin sín og geti með hjálp þeirra haldið sjálfstæði sínu og þátttöku í atvinnulífinu jafnt sem á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Alltaf má reikna með talsverðum fjölda sem þarfnast lyfja en þau verða að vera á viðráðanlegu verði. Algengt er að greiðsluþátttaka sjúklings sé allt að 20–25 þús. kr. á mánuði.

Hlutur sálfræðinga er afar mikilvægur en þeir eru ekki inni í endurgreiðslu trygginga. Það er sífellt verið að auka mikilvægi hlutverks sálfræðinga annaðhvort sem meðferð á fyrsta stigi eða sem viðbótarmeðferð, samtalsmeðferð í samvinnu við geðlækna. Útseldur taxti sálfræðinga er algengur um 6 þús. kr. og upp úr án nokkurrar aðstoðar og því ekki á allra færi að nýta sér þjónustu þeirra.

Hvað skal þá til bragðs taka? Ég tel nauðsynlegt að reyna enn einu sinni að hugsa öll úrræði til hjálpar geðsjúkum snemma í sjúkdómsferli. Meðferð og lyf eru í stöðugri þróun og við þurfum að horfa til annarra lækninga en hefðbundinna lækninga samkvæmt kokkabókum í nútímaþjóðfélagi. Við verðum að vera opnari fyrir nýjungum í geðlækningum, ekki síst af því að það er feimnismál hjá mörgum. Þess vegna verður fagfólk að eiga frumkvæðið. Við verðum einnig að endurskoða tryggingakerfi okkar, ekki aðeins gagnvart geðsjúkum heldur allri heilbrigðisþjónustunni. Við afnámum eyrnamerktan skatt á heilbrigðismál fyrir löngu en hugsanlega væri rétt að koma honum af stað aftur. Áhugamenn um heilbrigðisþjónustuna hafa margir hvatt til þess. Við verðum líka að þora að spyrja hvort við eigum ekki rétt á nánari skilgreiningu á þeim kröfum sem við gerum til þessara trygginga okkar, hvort viðbótartrygging skuli vera í boði ef fólk er ekki sátt við rammann sem tryggingar okkar gefa samkvæmt slíkri skilgreiningu. Kannski mætti meta frelsi til viðbótartrygginga sem hlutverk klársins sem dregur vagninn og flýtir fyrir betur skilgreindri, jafnvel aukinni og víðtækari heilbrigðisþjónustu en sameiginleg (Forseti hringir.) trygging gerir.

Frú forseti. Meiri þörf er á fleiri og faglegri umræðum um þróun heilbrigðisþjónustu við geðsjúka og aðra sjúklinga og við þurfum að koma að þeim hugmyndum fordómalaust og leita sameiginlegra og þverpólitískra lausna. (Forseti hringir.) Slíkar umræður hafa ekki verið margar í sölum þingsins.