131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:03]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Íslendingar eru afskaplega lítið fyrir að bíða í biðröðum og ef það hendir þjóðina að þurfa að bíða á umferðarljósi lengur en í 10–20 sekúndur þá vakna samstundis kröfur um mislæg gatnamót með slaufum og úrræðum sem kosta iðulega milljarða króna eða mörg hundruð millj. kr. Þetta er afstaða Íslendinga og íslenskra stjórnvalda til biðraða. Það á ekki við þegar aldraðir eða geðsjúkir eiga í hlut. Þá stendur svolítið á viðbótarframlaginu.

Hér hefur farið fram ágæt málefnaleg umræða þar sem ýmis sjónarmið eru viðruð. Það er mjög gott. En staðreyndin sem við búum við er sú að málefni geðsjúkra eru því miður í ólestri þrátt fyrir ýmislegt sem vel hefur verið gert. Það er nefnilega staðreynd að mörg hundruð einstaklingar eru á biðlistum. Það er staðreynd að fólk þarf iðulega að bíða í 3–5 mánuði eftir viðtali við sálfræðing eða geðlækni og þegar viðtölin hafa farið fram þá hefst einnig bið eftir vistun eða úrræðum. Þetta eru staðreyndir sem við megum ekki horfa fram hjá.

Hæstv. ráðherra heilbrigðismála rakti það í ræðu sinni hvernig útgjöld til geðheilbrigðismála hefðu aukist á undanförnum árum úr 2,1 milljarði í 2,2 og í 2,3. Formaður heilbrigðisnefndar, einnig úr Framsóknarflokki, hv. þm. Jónína Bjartmarz, kom hér upp og sagði að geðheilbrigðismál hefðu verið forgangsmál hjá stjórnvöldum. Er það virkilega svo? Ber það vott um sérstakan forgang að hlutur geðdeilda í rekstrarkostnaði spítalanna hafi minnkað á undanförnum árum? Hann var 1996 10,6%, 2003 kominn í 8,8% og á árinu 2003 í 8,1%. Þetta ber ekki vott um að þessi mál séu forgangsmál hjá ríkisstjórninni. Eða ber það vott um að geðheilbrigðismál séu forgangsmál hjá ríkisstjórninni þegar sólarhringsvistun, þ.e. legurýmum á spítölum fækkar úr 271 1996 niður í 199 á árinu 2003 og eru komin niður í 178 á árinu 2004? Ber þetta vott um forgang þessara mála? En varðandi þessa nýju hugmyndafræði sem boðuð er, og mér finnst góðra gjalda verð, að draga úr stofnanaþættinum eftir því sem kostur er og leita annarra úrræða, búa fólki sem á við geðsjúkdóma að stríða skilyrði sem líkjast betur og eru í takt við eðlilegt líf hvort sem það er á sambýlum eða á annan hátt, þá get ég tekið undir með hv. þm. Ástu Möller þegar hún sagði að ef við skerum niður í stofnanaþættinum án þess að þessi úrræði séu fyrir hendi er verr af stað farið en heima setið. Ég tek undir það vegna þess að þetta er að sjálfsögðu lykilatriði. Kerfisbreytingarnar einar réttlæta ekki þennan niðurskurð eða þessa fækkun rýma á spítölunum vegna þess að það kemur fram að á sama tíma og þetta gerist eykst ásóknin í bráðaþjónustuna. Hún fer vaxandi. Með öðrum orðum: Fólki er vísað út úr stofnunum en þarf síðan að leita hjálpar á bráðavakt og í bráðaþjónustu. Ber þetta vott um að ríkisstjórnin hafi sett geðheilbrigðismál í forgang, að það séu forgangsmál hjá ríkisstjórninni að leysa vanda geðsjúkra? Ég tel að svo sé ekki.

Það breytir að sjálfsögðu ekki hinu að sitthvað af því sem verið er að gera er góðra gjalda vert eins og ég gat um í upphafi. Ég fagna því t.d. að menn setji á fót teymisvinnu í Grafarvoginum eins og hér var lýst. Þetta er reyndar mjög í ætt við það sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði áherslu á fyrir síðustu alþingiskosningar. Þar settum við það fram sem sérstakt forgangsverkefni, stuðningsteymi í hverju heilsugæsluumdæmi fyrir fólk með félagslega eða geðræna röskun. Ég tek undir það sem margir hv. þingmenn hafa sagt við umræðuna að það er ekki nóg að greina vandann í samfélaginu eða hjá einstaklingnum, eftirmeðferð þarf að fylgja og raunveruleg meðferð og endurhæfing þar sem margir koma að. Að sjálfsögðu hljótum við að horfa á þessi mál með hliðsjón af hagsmunum og þörfum einstaklingsins sem á við sjúkdóminn að stríða en hann býr líka í umhverfi inni á heimili, á aðstandendur, fjölskyldu og stundum er það nauðsynlegt úrræði fyrir þessa fjölskyldu að sjúklingurinn eigi möguleika á innlögn á stofnun. Þegar við drögum úr þeim úrræðum eru við að ganga á rétt þessara aðila því þó að hugmyndafræðin hljómi vel og ég sé henni fylgjandi, þessum áherslubreytingum, megum við ekki gleyma þessu.

Ég held að allir sem til þekkja, sem eiga við geðsjúkdóma að stríða sjálfir eða eru aðstandendur eða vinir, og þurfa að reyna það á sjálfum sér að bíða vikum og mánuðum saman eftir úrræði, hafi afskaplega litla þolinmæði fyrir umræðu af því tagi sem við eigum hér og gefi lítið fyrir yfirlýsingar Framsóknarflokksins um að þessi mál séu í forgangi. Ég hef fullan skilning á þeim sjónarmiðum. Ég tek undir með hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur að því leyti að nauðsyn er á þverpólitískri samstöðu um úrlausn þessara mála. Þótt við höfum mismunandi aðkomu að þessum málum og mismunandi hugmyndir um hvernig við eigum að bera okkur að þá er það staðreynd að taka þarf miklu fastar á þessum málum. Ég fyrir mitt leyti lýsi því yfir fyrir hönd flokks míns, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að við munum styðja hæstv. ráðherra heilbrigðismála í viðleitni hans til að taka fastar á þessum málum því á því er brýn þörf.