131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:27]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem verið hefur um geðheilbrigðismálin. Ég vil fyrst víkja að nokkrum beinum spurningum sem ég fékk.

Í fyrsta lagi var spurt hvenær áformað væri framhald af þeirri vinnu sem hafin er í Grafarvoginum með því að koma þar upp teymi við heilsugæsluna. Við munum sjá hvernig reynslan verður af þessari vinnu — ég er sannfærður um að hún verði góð — og útfæra það síðan vonandi á fleiri stöðvum, en við munum fyrst sjá hvernig vinnan fer af stað.

Í öðru lagi var spurt hvenær ég hyggist fara í framhaldsvinnu með þær ályktanir sem samþykktar voru og aðgerðaáætlun sem samþykkt var í Helsinki. Því er til að svara að ég hef þegar kallað á þann hóp sem sat þá ráðstefnuna og hef átt einn fund með honum og við fórum yfir niðurstöðurnar. Ég hygg að innan mjög skamms tíma, talið í vikum fremur en mánuðum, kalli ég á hópinn aftur og formi það starf sem við þurfum að vinna í framhaldi af ályktuninni. Reyndar er ályktunin og aðgerðaáætlunin ekkert á skjön við það sem við höfum unnið að á undanförnum árum og mánuðum.

Menn minntust á Fjölmennt og framhald þess starfs. Ég tel að það sé komið í farveg. Vandamálið þar var að þetta var eitt af því sem var á gráu svæði á milli ráðuneyta. Þetta var rætt í ríkisstjórn fyrir áramót og var skoðun ríkisstjórnarinnar að eðlilegt væri að vista þetta sem viðauka við þjónustusamning Fjölmenntar.

Ég hef ekki trú á því að við þurfum ekki að ræða geðheilbrigðismál í þinginu framvegis, að þessi mál verði leyst í eitt skipti fyrir öll. Við höfum verið að auka þjónustu utan stofnana á mörgum sviðum og það er einmitt í samræmi við þá nýju hugmyndafræði sem uppi er í þessum málum og ég reyndi að rekja í framsöguerindi mínu. Hvort þetta er í forgangi? Það sem við leggjum vinnu í er í forgangi og það sem við leggjum aukna fjármuni í samkvæmt málskilningi mínum, en nóg um það.