131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:31]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég benti í ræðu minni á að ábyrgð á málefnum geðsjúkra er skipt á milli tveggja ráðuneyta, annars vegar heilbrigðisráðuneytisins, sem varðar málefni geðsjúkra innan heilbrigðiskerfisins, og hins vegar félagsmálaráðuneytisins, sem varðar málefni sömu einstaklinga um leið og þeir eru komnir út fyrir stofnanirnar. Fagfólk hefur bent á að hin skipta ábyrgð skapi hindranir og sé til þess fallin að minnka samfellu í þjónustu, seinka viðbrögðum við aðstæðum, bæði einstaklinga og hópa, og leiða til óþarfa kostnaðar.

Því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hver afstaða hans sé til þess að málefni geðsjúkra á öllum stigum færist á ábyrgð eins ráðherra eða hvernig telur hann að best sé að takast á við þær hindranir sem felast í því að ábyrgðinni er skipt á milli tveggja ráðuneyta.