131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:45]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Mergur málsins er kannski sá, sem sjá mátti á orðaskiptum hæstv. ráðherra og hv. þingmanns áðan, að það er ekki endilega svo að þó að meira fjármagn sé veitt til heilbrigðisþjónustu þýði það endilega meiri þjónustu eða meiri gæði. Hitt er óumdeilt að framlög til heilbrigðismála hafa verið að aukast allverulega sl. ár og ég minni á 8 milljarða kr. aukningu á milli áranna 2004 og 2005.

En erindi mitt í þennan ræðustól varðar orðaskiptin áðan, hvort það færi ekki best á því til að auka og bæta þjónustuna, að verkefni félags- og heilbrigðisráðuneyta væru unnin í einu ráðuneyti. Í því tilfelli vil ég minna á það sem við höfum öll talað um í ræðum okkar, um nauðsynina á samhæfingu. Ég læt mig ekki dreyma um að það verði einhvern tíma eitthvert eitt ráðuneyti geðsjúkra á Íslandi eða ráðuneyti barna og unglinga með geðraskanir. Þess vegna er svo brýnt að vera með samhæfingu og ég vil spyrja ráðherrann um hvort ekki sé þörf á samhæfingu í starfi hans og dómsmálaráðherra þegar kemur að geðsjúkum föngum.