131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:33]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá lipurð sem okkur er sýnd í stjórnarandstöðunni með að hliðra til þannig að við getum rætt við hæstv. forsætisráðherra utan dagskrár um ýmis ummæli og upplýsingar sem komu fram hjá honum í sjónvarpsviðtali í gær. Stjórnarandstaðan hefur lagt ríka áherslu á að sérstök rannsókn yrði sett í gang til að grafast fyrir um aðdraganda þeirrar ákvörðunar sem leiddi til þess að tveir forustumenn íslenskra stjórnmála lýstu einhliða yfir stuðningi við innrás Breta og Bandaríkjamanna í Írak. Stjórnarandstaðan hefur haldið því fram að þetta hafi gerst vegna pólitísks þrýstings frá Bandaríkjamönnum og vegna þess að varnarhagsmunir hafi blandast inn í þetta.

Því hefur aldrei verið játað fyrr en í gær að hæstv. forsætisráðherra staðfesti að það hefði verið þrýstingur Bandaríkjamanna sem leiddi til þessarar ákvörðunar. Það kom líka fram að varnarhagsmunir blönduðust þarna inn í. Hæstv. forsætisráðherra afsakaði þetta með því að hefðu menn hafnað beiðni frá 60 ára vinaþjóð hefði það verið veruleg stefnubreyting í öryggis- og varnarmálum okkar.

Það er rangt. Þarna var um ólögmætt innrásarstríð að ræða eins og Kofi Annan, ritari Sameinuðu þjóðanna, hefur manna best rökstutt. Það sem felur í sér stefnubreytingu er að Ísland skuli með þessum hætti styðja einhliða innrásarstríð sem er ólögmætt og það er líka stefnubreyting að stuðningurinn við einhliða innrás skuli vera tekinn án lögskipaðs samráðs við utanríkismálanefnd.

Hæstv. forsætisráðherra verður líka að tala skýrar um hvernig varnarhagsmunir blönduðust inn í þessa ákvörðun. Hann verður að segja okkur frá því með hvaða hætti það gerðist.

Ég vil líka að lokum, herra forseti, spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt lýsing sem höfð var eftir í sjónvarpsviðtalinu í gær um ákvörðunina, þ.e. að sendiherra Bandaríkjanna hefði komið í forsætisráðuneytið, hæstv. ráðherra farið út og talað við þann mann sem ræddi við sendiherrann, síðan hefði verið tilkynnt um stuðninginn og hæstv. ráðherra farið inn á fund ríkisstjórnarinnar án þess að tilkynna ríkisstjórninni.

Hvers vegna þetta pukur (Forseti hringir.) og hvers vegna þetta leynimakk?