131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:43]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Sá sorglegi atburður hefur átt sér stað að hæstv. forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar hefur ítrekað orðið uppvís að því að fara með ósannindi, hvað eftir annað. Það er mjög alvarlegt, sérstaklega í svo alvarlegu máli, í máli sem varðar það að Íslendingar skuli undir leiðsögn Framsóknarflokksins ákveða að fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum, að vísu með stuðningi Sjálfstæðisflokksins. Hvaða ósannindi eru þetta?

Í fyrsta lagi hélt hæstv. forsætisráðherra því fram að málið tengdist ekki varnarhagsmunum. Í fréttum Stöðvar 2 í gær viðurkenndi hann síðan að svo hefði verið. Að vísu er komið allt annað hljóð í strokkinn hér og ég veit í rauninni ekki hvað er að marka hæstv. forsætisráðherra eða hvernig á að skilja hann.

Í öðru lagi hefur hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson haldið því fram að það sem hafi valdið stefnubreytingunni örlagaríku hafi verið breytt afstaða Frakka. En óvart tók ágætur fréttamaður Stöðvar 2 hæstv. forsætisráðherra í landhelgi í gær og benti honum á að svo gæti ekki verið.

Í þriðja lagi liggur fyrir að hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað gefið í skyn að ákvörðunin um að styðja innrásina í Írak hafi verið rædd í þingflokknum, ríkisstjórn og í utanríkismálanefnd. Í viðtalinu í gær kom hins vegar fram að svo var ekki. Hann hefur gert þetta með því að segja að Íraksmálið hafi verið rætt en sjálf innrásin og ákvörðunin um hana var ekki rædd.

Í fjórða lagi hélt hæstv. forsætisráðherra því fram á Stöð 2 í gær að um tvo lista væri að ræða — það er ekki satt — að Ísland hefði bara sýnt móralskan stuðning og væri ekki beinn þátttakandi. Hvað voru þá hinir ágætu starfsmenn Landhelgisgæslunnar að gera þegar þeir fundu 20 ára gamlar sprengjur?