131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:50]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er greinilega mjög viðkvæm umræða. Hún er viðkvæm fyrir stjórnarflokkana og sérstaklega Framsókn, Kárahnjúkaflokkinn, og hún er einnig viðkvæm fyrir alla stjórnmálaflokka sem studdu Kárahnjúkavirkjun og stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Það er mikil einföldun hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, talsmanni Samfylkingarinnar, og öðrum talsmönnum Samfylkingarinnar við umræðuna að lausnin á vandanum sé að ganga í Evrópusambandið, taka upp evrópska mynt og þá sé bara allur vandi þurrkaður út. Nei, þetta mál er miklu djúpstæðra en svo að lausnin liggi í því.

Hæstv. forsætisráðherra segir: Skoðum málin heildrænt. Hér er hagvöxtur, hér er atvinnuleysi heldur minna en gerist annars staðar, við erum að fjárfesta til frambúðar og við höfum verið að búa í haginn fyrir framtíðina með því að leysa úr læðingi — orðalagið er svipað og hjá nýkapítalistunum — ríkisfyrirtækin. Þannig er það orðað. Vísað er til bankanna, sömu banka og reyndu að drepa Íbúðalánasjóð. Þegar það tókst ekki með því að kæra Íbúðalánasjóð, samfélagsþjónustuna, til ESA-dómstólsins þá fyrst lækkuðu þeir vextina.

Þetta eru sömu bankarnir og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson benti réttilega á að eru að pumpa milljörðum inn í efnahagslífið og eru þess valdandi að á árinu 2010 verður uppsafnaður viðskiptahalli frá síðasta ári 500 milljarðar. Skuldir Íslendinga sem búa við verga landsframleiðslu, sem nemur rúmum 800 millj., skuldir þjóðarinnar eru núna 2.300 milljarðar kr. Ég tek hæstv. forsætisráðherra á orðinu: Skoðum málin heildstætt. Erum við að byggja á bjargi eða sandi?

Varðandi fjárfestingarnar skulum við ekki gleyma því, og því skulu þeir ekki gleyma sem eru að fagna auknum umsvifum á Austurlandi, að hver einasta króna sem varið er þar til framkvæmda er tekin að láni. Það eru mikil áhöld um það hvort fjárfestingin muni ekki skila bókhaldslegu tapi. Fjárfestingin sem hæstv. forætisráðherra er að stæra sig af kann því að vera tap fyrir þjóðina þegar til lengri tíma er litið.

Ég vil gera það að lokaorðum mínum að vísa í þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt og hótað að fylgja til frambúðar. Hún segir: Meiri stóriðju, virkjum meira. Hæstv. iðnaðarráðherra ferðast um landið með hóp stóriðjufursta erlendis frá og býður þeim fallvötnin. (Forseti hringir.) Það er boðað áframhald á þessari stefnu (Forseti hringir.) og á að vera okkur öllum áhyggjuefni.