131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[15:00]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra varðandi það að staða íslensks atvinnulífs er óvenjugóð um þessar mundir. En vissulega fylgja vaxtaverkir mjög háu gengi krónunnar og erfiðleikum útflutningsgreina eins og ítrekað hefur komið fram í ræðum manna. En það er ekki vegna stóriðjunnar fyrir austan. Hún hefur haft minni áhrif en menn áttu von á vegna þess að þar hefur verið flutt inn fjármagn til að borga tæki sem flutt eru inn og flutt inn fólk til að vinna vinnuna.

Nei, áhrifin eru þau að íslensku bankarnir styrkjast. Íslensku bankarnir eru komnir með mjög gott lánshæfismat í útlöndum, svo gott að það er að verða svipað lánshæfi íslenska ríkisins. Það olli því að íslensku bankarnir gátu farið að veita stærstu lánastofnun landsins, Íbúðalánasjóði, samkeppni um mitt sumar. Þeir lækkuðu vexti á lánum til íbúðareigenda og veittu þar með Íbúðalánasjóði mikla samkeppni. Það er ein mesta hagsæld sem íslenskir launþegar hafa fengið, mun meiri en verkalýðshreyfingin hefur skaffað þeim vegna þess að Íslendingar skulda yfirleitt töluvert meira en þeir eiga, ef við tökum lífeyrissjóðina frá.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 1% 2. desember. Hann gekk út frá neysluvísitölu Hagstofunnar. Þar í er húsnæðiskostnaður sem hefur vaxið, vegna hinnar miklu hagkvæmni sem íslenskir húsnæðiseigendur hafa orðið fyrir. Það er mjög athyglisvert. Án húsnæðiskostnaðar er vísitalan 2,3% og er bara ósköp hugguleg.

Ég hef miklar efasemdir um hækkun Seðlabankans. Ég tel að íbúðareigendur hafi flestir grætt á vaxtalækkuninni og margir þeirra töluvert, þeir sem skuldbreyttu. Aðrir hafa grætt á hækkun húsnæðisverðs. Eign þeirra hefur hækkað en skuldirnar ekki. Ég geri miklar athugasemdir við að Seðlabankinn skuli nota húsnæðisverð, sem í mörgum öðrum löndum er ekki notað. Menn treysta sér ekki til að mæla þann kostnað þar sem bæði er um að ræða fjárfestingu og kostnað samtímis. Ég geri miklar athugasemdir við það hvernig Seðlabankinn hefur hækkað gengið umfram það sem þörf er á vegna þess að vísitala án húsnæðiskostnaðar er sáralítil, jafnvel verðhjöðnun síðustu þrjá mánuði.