131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[15:06]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég tel að umræðan sé mjög mikilvæg. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í henni í dag. Það er rétt sem einhver þingmaður sagði, að þetta er mál sem fólkið í landinu er að tala um. En mér finnst hins vegar að stjórnarandstaðan hafi lagt miklu meiri áherslu á fyrra málið sem var hér til umræðu, a.m.k. miðað við þann áhuga sem verið hefur á umræðunni. Forustumenn Samfylkingarinnar sýndu því máli mun meiri áhuga en þessu máli. (Gripið fram í: Búin að bíða eftir þeirri umræðu í þrjár vikur.) Já, eitthvað hefur hv. þingmaður verið fjarverandi og einnig sá sem hér stendur. Svona gengur þetta í lífinu.

Menn segja að þetta líti mjög illa út. Hvað segja utanaðkomandi aðilar? Tvö alþjóðleg fyrirtæki hafa staðfest hæsta lánshæfismat Íslands á undanförnum mánuðum. Við eigum von á því í dag að fá eitt matið enn. Ég spái því að þar verði hækkun á lánshæfismati Íslands.

Það liggur líka fyrir að úrvalsvísitalan á hlutabréfamarkaðinum hefur hækkað um 15% frá áramótum, meira en spáð var. Einnig er ljóst að tekjuskattur fyrirtækja mun á þessu ári skila meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum, m.a. vegna afkomu fjármálafyrirtækja. Þannig eru mjög mörg jákvæð teikn á lofti.

Hér er talað um skuldasöfnun í landinu. Það er rétt. Fyrirtækin hafa skuldsett sig mikið. En hvaða fyrirtæki eru þetta? Þetta eru fyrirtæki sem sækja fram, sem hafa trú á framtíðinni og skuldsetja sig og skapa fleira fólki vinnu. Þau hafa trú á framtíðinni og menn mega ekki sjá þetta allt í dökkum litum, eins og mér finnst frummælandi gera og saka mig um að vera heldur bjartsýnan. Það er eiginlega með betri ásökunum sem ég fæ á mig og ég er út af fyrir sig þakklátur fyrir hana.

Meginverkefni stjórnvalda á næstu árum er að tryggja áframhaldandi stöðugleika og skapa atvinnulífinu þá rekstrarumgjörð sem atvinnulíf þarf á að halda. Auka þarf kaupmátt heimilanna, sem er að gerast. Það er stöðugleikinn sem skiptir þar mestu máli og við megum alls ekki missa hann úr höndunum. Ég vona að allir geti verið sammála um það.