131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[15:10]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Málið sem hér er til umræðu er örugglega eitt stærsta málið sem við höfum til umfjöllunar á þessum vetri. Það er rétt, sem hæstv. viðskiptaráðherra sagði í yfirgripsmikilli ræðu sinni, að auðvitað verða með því engar grundvallarbreytingar á lagaumhverfinu sem hér er til umræðu. Hins vegar er augljóst að um er að ræða þýðingarmikinn þátt í fjármálalífinu, rekstrarumhverfi fyrirtækjanna og aðstæðum almennings. Því er full ástæða til þess af okkar hálfu að ræða málið ítarlega og málefnalega. Málið er af þeim toga að það kallar á talsvert mikla yfirlegu af hálfu þeirra sem með málið fara í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Þegar við skoðum þessi mál í samhengi sjáum við að við höfum stöðugt verið að þróa verðbréfaviðskiptin, umhverfi fyrirtækjanna, hlutabréfamarkaðinn og þar fram eftir götunum, á undanförnum árum. Margt af því sem við teljum núna sjálfgefið höfðum við hreinlega ekki tilefni til að setja lög um fyrir fáeinum árum. Það endurspeglar þær miklu breytingar sem orðið hafa á umhverfinu vegna verðbréfaviðskipta, hlutabréfanna og vegna þess að almenningur eykur stöðugt þátttöku sína í þessu. Almenningur fer með stærri hluta af sparnaði sínum og ráðstöfunartekjum í að fjárfesta á þessum sviðum til að auka tekjur sínar og bæta eignir sínar. Sem betur fer hefur velgengni í atvinnulífinu, vöxtur á verðbréfa- og hlutabréfamörkuðunum orðið til að færa auð og eignir líka til almennings í landinu þótt ég telji æskilegt að ganga enn lengra í þeim efnum. Ég tel mjög mikilvægt fyrir okkur, bæði í pólitísku og efnahagslegu tilliti, að almenningur sé sem virkastur þátttakandi í hlutabréfakaupum og hlutabréfaeign.

Ég hef á undanförnum árum sjálfur hreyft málum sem lúta að þessu. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu máli og geti verið hluti af því að jafna lífskjör og bæta þau að almenningur eigi í fyrirtækjunum. Um leið og fyrirtækin eflast og þau fara að skila arði þá rennur sá arður til almennings í landinu. Bent hefur verið á að þar sé kannski tækifæri til að bæta og jafna lífskjörin á nýstárlegan hátt, þ.e. ef almenningur er þátttakandi í atvinnulífinu. Ég spurði fjármálaráðherra á sínum tíma um hlutabréfakaup einstaklinga til að verða sér úti um skattafslátt. Það kom fram að frá árinu 1990–1999 hafði þeim fjölgað um helming. Fjöldi einstaklinga sem keyptu sér hlutabréf hafði tvöfaldast.

Við vitum hins vegar að á undanförnum árum hafa orðið breytingar á því. Að mínu mati er það áhyggjuefni. Ég lagði því fyrr í vetur fyrir hæstv. viðskiptaráðherra fyrirspurn um hlutafjáreign einstaklinga, til að reyna að draga fram hver þróunin hefði verið á allra síðustu árum. Því miður hefur ekki tekist að svara þeirri spurningu. Ég vænti hins vegar svars innan tíðar og tel að svarið við þeirri spurningu eigi að vera eitt af þeim lykilgögnum sem menn leggja til grundvallar þegar farið verður yfir þessi mál.

Veigamikill þáttur í frumvarpi þessu er það sem lýtur að yfirtökum og yfirtökuskyldu og mig langar að gera það að umræðuefni. Það er ekki mjög langt síðan við settum í lög heimildir eða ákvæði um yfirtökuskyldu. Það var á árinu 1992 sem samþykkt var þingsályktunartillaga sem leiddi síðan til lagasetningar um yfirtökuskyldu. Þá vorum við með ákvæði í lögunum sem kváðu á um að ef aðili væri kominn með 90% eign þá myndaðist yfirtökuskylda. Síðan hefur þróunin einfaldlega verið sú að við höfum fært þetta niður, fyrst niður í 50% að ég hygg og síðast niður í 40% . Nú rís yfirtökuskyldan miklu fyrr en áður og það er mjög eðlilegt. Við vitum að í almenningshlutafélögum og mörgum hlutafélögum er staðan sú að eignaraðildin er býsna dreifð. Menn þurfa ekki að eignast nema lítinn hluta í fyrirtæki til að hafa þar ráðandi stöðu. Þá er auðvitað hægt að læsa menn inni, litla hluthafa, t.d. einstaklinga sem standa þá frammi fyrir því að eignarhluti þeirra er í raun ekki virkur. Það er því ekki óeðlilegt að við höfum slík ákvæði um yfirtöku.

Á árinu 2003 þegar við vorum síðast að fara yfir þessi mál var þetta mjög til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd sem ég var þá formaður fyrir. Þá voru mjög miklar umræður um það hvort lækka ætti þessi 40% jafnvel neðar og fara með þau niður í 30%. Það var eftirtektarvert að þegar maður las umsagnir um þetta mál á þessum tíma þá var það mjög almenn skoðun — ég segi ekki eindregin skoðun allra heldur mjög almenn skoðun mjög margra — að það ætti að lækka þetta hlutfall úr 40% niður í 30%. Að vísu var bent á að það gæti aftur á móti kallað á tiltekin vandamál, m.a. hjá lífeyrissjóðunum sem skyndilega gætu verið komnir í þá stöðu vegna einhverra tilfærslna að hún kallaði á yfirtökuskyldu í fyrirtæki og lífeyrissjóður væri síðan allt í einu orðinn eigandi að tilteknu fyrirtæki. Auðvitað er þetta sjónarmið og röksemd sem full ástæða er til að hlusta á.

Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar frá þessum tíma eru þessi sjónarmið rakin og segjum þar, með leyfi virðulegs forseta:

„Nefndin leggur af þessum sökum til að hlutfallið verði lækkað niður í 40%. Ljóst er að slíkt atkvæðamagn gerir hluthöfum í flestum tilvikum kleift að hafa ráðandi áhrif á stjórnun félaga. Jafnvel má leiða að því líkur að ráðandi áhrif skapist oftast við enn lægra hlutfall atkvæðisréttar. Ekki er gengið lengra í lækkun hlutfallsins að þessu sinni en nefndin telur engu síður ástæðu til að taka það til gaumgæfilegrar skoðunar hvort rétt sé að lækka það enn meira.“

Nú hefur hins vegar komið fram frumvarp sem má segja að sé rökrétt framhald af þeirri vinnu sem menn hafa verið að vinna. Ég held að þetta sé mjög vel unnið frumvarp og vel úr garði gert almennt talað. Þar nálgast menn þessi mál dálítið öðruvísi. Mér finnst við lestur þessa frumvarps að það sé gert skynsamlega. Í stað þess að lækka hlutfallið úr 40% í 30% er náð utan um það sem við höfum séð gerast í tilteknum hlutafélögum, þ.e. að menn hafa verið að taka saman höndum og það hafa verið að myndast eins konar blokkir, formlegar og óformlegar blokkir þar sem menn eiga mjög náið samstarf um fjárfestingar hingað og þangað þannig að oft er sú staða uppi að tiltekinn einn hluthafi á 20–30% sem ekki myndar yfirtökuskyldu en er hins vegar augljóslega í nánu samstarfi við tiltekinn hóp hluthafa þannig að sá hluthafahópur kemur fram sem einn. Í þessu frumvarpi er í raun að mínu mati um miklu skynsamlegri nálgun að ræða en þá að lækka 40% í t.d. 30% vegna þess að nú er tekinn með í reikninginn, skulum við segja, sá veruleiki sem vissulega er til staðar, að ekki er bara um að ræða einn hluthafa heldur hluthafahóp og þegar hluthafar mynda tiltekin tengsl eða vensl þá myndast yfirtökuskylda. Þetta finnst mér miklu eðlilegri nálgun og miklu meiri endurspeglun á raunveruleikanum í viðskiptalífinu í dag þar sem við sjáum hvernig blokkirnar og tengslin og köngulóarvefirnir spinna sig um viðskiptalífið og ættu í raun að kalla á yfirtökuskyldu sem þó ekki gerist vegna ákvæðisins eins og það er í dag. Ég tel því, virðulegi forseti, að þetta sé almennt talað mjög skynsamleg nálgun á málinu.

Af því að ég er að gera hér að sérstöku umtalsefni þessi yfirtökumál þá er líka hér um að ræða gríðarlega mikil mál. Þetta skiptir okkur óskaplega miklu máli. Hér er ekki bara um að ræða mál sem snýr að fólki sem alla daga vinnur við að véla á þessum verðbréfamarkaði. Hér er um að ræða mál sem skiptir máli fyrir vasa einstaklinga, launafólks, lífeyrissjóði ýmsa aðila úti um allt í þessu þjóðfélagi.

Ég get tekið sem dæmi að ef við bara skoðum veltuna með hlutabréf í Kauphöllinni á síðasta ári þá nam hún um 720 milljörðum kr. Þetta eru langmestu viðskipti sem hafa verið á nokkru ári. Þau voru t.d. 520 milljarðar, þ.e. 200 milljörðum minni, á árinu á undan og ekki nema 320 milljarðar árið 2002. Þetta er 400 milljarða aukning frá 2002–2004. Þetta eru ótrúlega miklar breytingar. Ef við skoðum síðan fjölda hlutabréfanna sem skiptu þarna um eigendur þá voru þau 86 þúsund í fyrra sem var 33% aukning frá árinu 2003.

Ég undirstrika þetta vegna þess að ég tel að það skipti svo miklu máli að vandlega sé unnið að löggjöfinni í þessum efnum. Ég trúi ekki öðru en að menn geti náð saman um það vegna þess að hér er fyrst og fremst um að ræða almannahagsmuni sem lúta að einstaklingum, fyrirtækjum, lífeyrissjóðum, fagfjárfestum og öðrum. Ég hvet mjög til þess að reynt sé að ganga þannig frá þessu máli þegar við ljúkum þeirri lagasetningu að bærilega sé séð fyrir hagsmunum hluthafanna, ekki síst minni hluthafanna sem að mínu mati skiptir mjög miklu máli að laða til fjárfestinga í hlutafélögum.

Að mínu mati er gallinn við þetta frumvarp fyrst og fremst sá að það gengur ekki nægilega langt til móts við þarfir minni hluthafanna, hins dæmigerða meðaljóns sem er þátttakandi í einhverju svona hlutafélagi, fylgist ekki með á degi hverjum hvernig hlutirnir ganga fyrir sig, kaupin eru að gerast á eyrinni, en hefur auðvitað mikilla hagsmuna að gæta. Ég er að tala um mann sem kannski er búinn að leggja fyrir milljónir af sínum lífeyri eða sparnaði í gegnum árin í einhver fyrirtæki og hann þarf að geta treyst því að við göngum þannig frá lagaumgjörðinni að hann geti verið sæmilega öruggur um sinn hag eins og hægt er að vera öruggur í svona viðskiptum. Þess vegna þurfum við að mínu mati að ganga þannig frá málinu að við tryggjum að ekki verði til óeðlilegar verðmyndanir sem geri það að verkum að einstaklingar neyðist til þess að selja hlut sinn í fyrirtækjum á hrakvirði eða virði sem er miklu lægra en raunverulegt verðmæti segir til um.

Þetta skiptir okkur miklu máli líka vegna þessara miklu breytinga sem eru að verða í okkar umhverfi. Ef við bara skoðum árið 2003 þá voru á því ári 14 fyrirtæki afskráð úr Kauphöllinni á grundvelli yfirtöku, fimm félög þar á undan, eitt félag þar á undan. Þetta sýnir okkur þessa tilhneigingu sem við sjáum. Það eru að verða svo miklar breytingar. Við heyrum daglega fréttir af yfirtökum. Fyrirtæki eru að splitta sig upp o.s.frv. og frá sjónarhóli litla hluthafans er þetta auðvitað einhver ólgusjór sem menn tæplega leggja út í. Fyrir okkur sem trúum því að það skipti mjög miklu máli, af öllum ástæðunum sem ég rakti áðan, að einstaklingar séu hluthafar í svona fyrirtækjum er það mjög þýðingarmikið að frá þessum málum sé þannig gengið að litli Jón og litla Gunna sem vilja leggja peninga í þessi stóru fyrirtæki geri það óhrædd í trausti þess að hér sé um að ræða ávöxtunarmöguleika til þess að nýta sparnaðinn í.

Þær aðstæður geta skapast að fyrirtæki er á markaði eða utan markaðar þar sem veltuhraði með hlutafé er lítill og ekki verður til raunverulegt markaðsverðmæti. Hérna er að vísu reynt að horfa til þess að segja sem svo að stjórn fyrirtækisins eigi þá að meta hvort eðlilega sé að verðmynduninni staðið. Út af fyrir sig er það veigamikið atriði sem skiptir líka máli. Ég er algjörlega sammála því. Þetta sjáum við líka í Bretlandi. Við sjáum t.d. fréttirnar af útrás þessara stóru fyrirtækja, Baugs og allra þessara fyrirtækja. Þau þurfa að ganga í gegnum þetta ferli. Það er kallað eftir áliti o.s.frv. áður en svona yfirtökur eru samþykktar. Þetta sem hér er verið að leggja til er skref í þessa átt, alveg hárrétt skref og lógískt skref í þessa átt. Stjórnin í viðkomandi hlutafélagi sem ætti auðvitað að endurspegla hagsmuni hluthafanna sem fyrir eru þarf að segja álit sitt áður en menn fallast á yfirtökuna.

Tökum nú dæmi af félagi þar sem veltan er mjög lítil og mjög erfitt að átta sig á því hvert markaðsverðmætið er. Þá tel ég að við verðum að fara með sérstökum hætti með slík bréf. Frumvarp sem ég lagði fram í lok síðasta þings, endurflutti núna í haust og er komið til efnahags- og viðskiptanefndar og bíður þar meðferðar, m.a. vegna þess að vitað var að þetta frumvarp sem hér er til umræðu var væntanlegt, tekur sérstaklega á því máli.

Þar er lagt til að við innleiðum inn í löggjöfina hugtakið veltuhraða, þ.e. reynum að skilgreina hvenær við séum að tala um mikla veltu með hlutabréf og hvenær um litla veltu með hlutabréf því mikil velta hefur náttúrlega tilhneigingu til þess að gefa forsendur eða leggja grunninn að markaðsvirði. Lítil velta gefur hins vegar ekki þær forsendur. Þess vegna tel ég að við þurfum með einhverjum hætti að reyna að nálgast það hvenær við tölum um mikla veltu og litla veltu, þ.e. hvenær við erum í raun og veru með raunverulegt markaðsvirði fyrirtækja. Þess vegna tel ég að eðlilegt væri að reyna að skoða hvort ekki mætti hafa ákvæði í lögunum sem fela í sér tilraun til skilgreiningar á veltuhraðanum og skilgreina síðan þann veltuhraða sem þarf að vera til staðar áður en gengið er til samþykktar eða synjunar á yfirtökutilboði til viðbótar við það sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Ég nefni í frumvarpi mínu hugmyndir um að veltuhraðinn skuli vera 0,5. Sumum finnst það dálítið hátt og benda á að í stórum fyrirtækjum þar sem mjög margir hluthafar eru sé þetta of takmarkandi. Ég er ekki alveg viss um það. Ég hef skoðað viðskiptin á árinu 2004 og veltuhraðinn þar er nánast alls staðar — með undantekningum þó — yfir 0,5 og ég tel að það væri engin goðgá í undantekningartilvikum, þegar svo háttar til að veltuhraðinn er lítill og forsendurnar fyrir markaðsvirði hafa ekki verið til staðar, og ekki óeðlilegt að með yfirtökutilboð við slíkar aðstæður yrði farið með sérstökum hætti.

Ég held að það sé rangt sem sumir hafa látið í veðri vaka að skorður eins og ég er hér að leggja til og tala fyrir séu á einhvern hátt hamlandi eða skaðandi fyrir hlutabréfamarkaðurinn. Ég held alveg þvert á móti að það að við séum með skýrar reglur, reglur sem a.m.k. örugglega tryggja eða gera litlu hluthafana öruggari um sinn hag, muni stuðla að því að fólk verði frekar tilbúið til þess að leggja sparifé sitt í hlutabréf í íslensku viðskiptalífi. Þess vegna tel ég, og það er alveg augljóst, að frá sjónarhóli stóru hluthafanna, frá sjónarhóli fyrirtækjanna, frá sjónarhóli atvinnulífsins, frá sjónarhóli fjármálaumhverfisins sé ákaflega mikilvægt að við búum þannig um hnútana að hagur lítilla hluthafa sé þannig að menn séu sæmilega öruggir með sig í þessum mikla ólgusjó eins og ég orðaði það hérna er ég var með myndlíkingu af viðskiptalífinu eins og það er í dag.

Ég er ekkert að segja það endilega að þetta sé eina leiðin sem við getum farið í þessum efnum. Ég ítreka það að ég tel að í þessu frumvarpi sé mjög komið til móts við það sjónarmið sem ég hef verið að tala hérna fyrir. En það breytir ekki því að ég hvet þingmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem munu fá þetta mál til meðhöndlunar að skoða þetta alveg sérstaklega vegna þess að það skiptir svo miklu máli.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, ætla ég ekkert að orðlengja mjög mikið um þetta mál. Ég vek athygli á því að þegar við höfum verið að gera þessar breytingar í sambandi við verðbréfamálin og lagasetningu þar um hefur ríkt mikil pólitísk og þverpólitísk samstaða og þær breytingar sem við höfum verið að gera hér í áranna rás hafa allar, hygg ég, verið gerðar þannig að um þær hefur myndast samstaða. Til dæmis voru þær breytingar sem gerðar voru hér á árinu 2003 og ég nefndi áðan þannig að menn voru almennt sammála um þær vegna þess að þær horfðu í þessa átt. Hins vegar voru menn — og það kemur greinilega fram í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar — eru og hafa verið með hugann við og augun á því hvernig hægt sé að tryggja til frambúðar stöðu hinna minni hluthafa. Ég lít svo á að einn megintilgangurinn — það kemur raunar fram í athugasemdakaflanum — sé sá að reyna að styrkja þennan grundvöll. Það hafa menn verið að gera á vettvangi Evrópusambandsins. Þar hefur þetta reyndar ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Maður sér að margar atrennur eru gerðar að því að innleiða þessar tilskipanir og þær hafa smám saman verið að líta dagsins ljós eftir að menn hafa reynt að ná einhverri málamiðlun.

Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt — það var t.d. sagt á viðskiptaþingi í gær eða fyrradag af einum af þessum stóru fjárfestum — að við megum auðvitað ekki búa þannig um hnútana að umhverfi viðskiptalífsins sé allt öðruvísi en í löndunum í kringum okkur. En það að styrkja stöðu lítilla hluthafa til þess að tryggja að þeir taki þátt í íslensku atvinnulífi getur ekki á nokkurn hátt hamlað íslensku atvinnulífi. Það mun styrkja það ef eitthvað er.