131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[15:32]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við höfum séð að er afrakstur af einkavæðingu bankanna er tvennt. Það er alveg rétt að bankarnir græða núna miklu meira en þeir gerðu áður. Á sama tíma sjáum við líka sem afleiðingu af samkeppni á fjármálamarkaði, sem ekki var fyrir áður, að vextir hafa verið að lækka og þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi verið að hækka stýrivexti sína þá blasir engu að síður við að bankarnir bjóða í dag lánskjör sem eru miklu lægri en áður. Þeir geta rekið sig á lægri vaxtamun og þeir hafa vegna samkeppninnar líka neyðst til að lækka þjónustugjöld sín. Þegar maður ræðir við fulltrúa þessara banka þá er eitt sem stendur upp úr þeim öllum og það er að enginn þeirra gerir ráð fyrir að hægt sé að reka banka með miklum hagnaði í krafti mikils vaxtamunar eða hárra þjónustugjalda. Þeir bankar sem verða að reiða sig á þetta tvennt munu verða undir. Þess vegna hafa bankarnir í vaxandi mæli tekið þátt í beinum fjárfestingum, bæði sjálfir og í gegnum fyrirtæki sín. Hagnaður bankanna á síðasta ári er að langmestu leyti gengishagnaður af slíkum pappírum. Sem betur fer hafa þeir getað notað þennan gengishagnað til að koma til móts við þarfir okkar venjulegra Íslendinga sem skuldum í bönkunum og við höfum séð aðeins lækkanir á vöxtum.

Ég geri ráð fyrir því að nýtt einkavætt fjarskiptafyrirtæki muni fara þá leið að reyna að lækka kostnað sinn og auka tekjur sínar vegna þess að það er eini sénsinn fyrir slíkt fyrirtæki til að lifa af í samkeppninni. Ég mundi ekki hafa neinar áhyggjur af því sem menn kölluðu hér í gamla daga kennitölusöfnun. Kennitölusöfnunin í kringum Landsbankann og Búnaðarbankann var gerð mjög tortryggileg. Eftir sem áður var það nú þannig að mig (Forseti hringir.) minnir að 40–50 þúsund Íslendingar áttu hlutabréf í þessum bönkum þegar upp var staðið og búið var að ná gömlu hlutabréfunum af stóru fjárfestunum.