131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[15:35]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir skilmerkilegt og gott svar en það vekur upp nýja spurningu hjá mér. Eins og ég vék að varðandi hugsanlega sölu á Símanum þá vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort sú hugsun hafi hvarflað að honum, eins og hefur reyndar hvarflað að þeim sem hér stendur, að ef menn selja Símann eins og fyrirhugað er, sem við höfum reyndar varað við í stjórnarandstöðunni að selja dreifikerfið með Símanum, væri þá e.t.v. rétt af okkur stjórnmálamönnum að vekja athygli lífeyrissjóðanna á því að eignast Símann. Þar er jú okkar eigið fé sem við ætlum að ávaxta til elliáranna og sem þjóðin ætlar að treysta á inn í — ja, hvað hefur verið sagt hér — gulli prýdda veröld framtíðarinnar, þangað sem við förum öll á fyrsta farrými? Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann álíti að það væri rétt af okkur að ráðleggja lífeyrissjóðunum að fjárfesta í Símanum ef hann verður seldur og ná þá í þann hagnað sem ég heyrði að hv. þingmaður gerði ráð fyrir að mundi einnig fæðast við einkavæðingu Símans eins og orðið hefur í bönkunum, og við værum þar með í raun og veru að tryggja hag þjóðarinnar og okkar allra til framtíðar. Ég held að það sé rétt að við förum að ræða þetta og velta þessu fyrir okkur. Eða ætlum við að horfa upp á það að sama þróun verði varðandi Símann og varð við sölu á bönkunum að þessu leyti? Ég held að þetta sé nokkuð áhugaverð spurning.